139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[14:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa athugasemd og greini góðan hug hans til þess að reyna að halda áfram með málið. Það er kannski ekki endilega á hans ábyrgð hvernig verklagið hefur verið. Það er til svo mikið af efni sem flokkar hafa komið sér saman um þvert á flokkslínur. Menn hafa náð ákveðinni málamiðlun. En ríkisstjórn er búin að vera í rúm tvö ár og ég spyr: Hvað hefur hún verið að gera? Af hverju kemur ekki, eftir tveggja ára setu vinstri stjórnarinnar, fram fullbúið frumvarp um fjölmiðla? Allur þessi grunnur af upplýsingum er til og allir reiðubúnir að vinna að því að móta heildstæða og heilbrigða fjölmiðlalöggjöf þannig að við getum horft fram á að fjölmiðlar, hvort sem þeir eru einkareknir eða reknir af hinu opinbera, þ.e. Ríkisútvarpið, geti verið reknir hér til lengri tíma á heilbrigðum grunni af því að við vitum að allir stjórnmálaflokkarnir vilja styðja þá til að stuðla að því að réttur til upplýsinga aukist, fjölmiðlalæsi, fjölbreytni o.s.frv. Af hverju var þetta ekki tilbúið þegar allir voru reiðubúnir að fara í vegferð með fjölmiðlana? Ég gagnrýni að menn hafi ekki verið tilbúnir í það. Var það út af því að menn þorðu ekki að snerta á eignarhaldinu eftir alla þá umræðu sem var mikil mistök á sínum tíma?

Ég ítreka þá skoðun mína, það voru mikil mistök af hálfu vinstri manna að hafa staðið svona þvert gegn fjölmiðlafrumvarpinu á sínum tíma, 2004. Sú saga er búin, en við skulum læra af henni. Það virðist ekki hafa verið gert. Þess vegna eru enn þá stórar eyður í frumvarpi um fjölmiðla sem væntanlega verður samþykkt. Síðan hefur ýmsu verið bætt inn sem ég held að sé ekki til þess fallið að styrkja og efla fjölmiðla. Þá er ég enn og aftur með Fjölmiðlastofuna í huga. Mér finnst miður að tækifærið (Forseti hringir.) hafi ekki verið nýtt til breytinga.