139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[14:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að tækifærið til breytinga hafi verið prýðilega nýtt í þessari vinnu. Að mínu mati er ekki með neinni sanngirni hægt að halda því fram að þetta verði ekki löggjöf sem taki vel á þessum markaði. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir nefnir eignarhaldið. Það er einfaldlega nefnd að störfum sem er að fara yfir tillögur þverpólitísku nefndarinnar frá 2005. Hún átti samkvæmt frumvarpinu að skila af sér fyrir 1. maí. Nefndin gerir tillögu um að hún fái einn mánuð til viðbótar til að skila af sér þannig að skilin verði 1. júní. Núna erum við komin inn í apríl þannig að það eru örfáar vikur í að við fáum niðurstöðu í þessu mikilvæga máli sem sannarlega skiptir máli upp á að tryggja fjölræði á markaðnum.

Varðandi stjórnsýsluna er rétt að árétta að sú breyting hefur orðið í meðförum nefndarinnar að ekki er gert ráð fyrir því að Fjölmiðlastofa verði sett á fót, heldur stjórnsýslunefnd, sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem hefur samkvæmt hefðinni mun þrengra svigrúm til þess að bólgna út og verða að miklu skrifræðisbákni. Henni eru ekki ætlaðar stórar fjárhæðir í fjárlögum, 28 milljónir eiga að bætast við miðað við þau umsvif sem útvarpsréttarnefnd hafði. Þetta fyrirkomulag, sjálfstæð stjórnsýslunefnd, er nákvæmlega það fyrirkomulag sem er í öllum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins nema tveimur, Íslandi og Lúxemborg. Fordæmin eru alls staðar í kringum okkur. Ég hef ekki fundið aðra og betri leið til þess að gera þetta með skilmerkilegum og ódýrum hætti en þá sem er lögð til í frumvarpinu ef menn á annað borð telja mikilvægt að á sviðinu sé einhver aðili sem fylgist með því að ákvæðum þessara laga, t.d. um framferði einstakra fjölmiðla á auglýsingamarkaði, sé framfylgt.