139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[14:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem maður ræðir frumvarp að fjölmiðlalögum. Ég man eftir því að ég gerði það fyrir nokkrum árum. Þá var hér fullur salur af fólki og gott ef það voru ekki allir fjölmiðlar landsins sem höfðu mikinn áhuga á því máli. Ég man vel eftir þessu því að þá var mjög mikið af hv. þingmönnum frá Samfylkingunni og Vinstri grænum í þingsalnum og það heyrðist hátt í þeim í hvert skipti sem maður fór yfir efnisatriði málsins. Það var mál sem var mjög viðkvæmt, fór strax í pólitískar skotgrafir og var allt gert mjög tortryggilegt og endaði með því að forseti lýðveldisins skrifaði ekki undir lögin og þau voru felld úr gildi. Ég held að það hafi verið óskynsamlegt að ganga ekki frá því máli á sínum tíma og ég held að það hafi líka verið óskynsamlegt að það skyldi vinnast með þeim hætti sem gerðist á hv. Alþingi.

Nú nokkrum árum síðar hafa margar nefndir farið yfir þetta og búið er að vinna, eftir því sem ég best veit og ætla, mikið starf og mikil gagnaöflun hefur farið fram. Hér er niðurstaðan og það er frumvarp hæstv. ríkisstjórnar að fjölmiðlalögum. Það veldur gríðarlegum vonbrigðum þetta frumvarp. Það veldur mjög miklum vonbrigðum að menn skauta fram hjá þeim stóru málum sem nauðsynlegt er að taka á, eins og því miður gerist í mjög mörgum málum, og vonast til að hægt sé að ganga frá því einhvern tíma seinna.

Þá er ég að tala um þrennt. Ég er að tala um eignarhald á fjölmiðlum, ég er að tala um að verið sé að koma á nýju eftirlitsbatteríi, sem ég hef ekki fengið algjöra staðfestingu á hvað muni kosta á ári, en þetta eru einhverjir tugir milljóna, og í þriðja lagi er ekki tekið á RÚV og stöðu þess og meðal annars samkeppnisstöðu á auglýsingamarkaði.

Nú, virðulegi forseti, má færa rök fyrir því að sérstaklega eignarhaldið og RÚV séu erfið mál, þau eru viðkvæm og erfið. En ég fullyrði að aldrei hefur gefist betra tækifæri en núna til þess að ræða þessi mál. Það felast tækifæri, jafnsérkennilegt og það hljómar, í því ástandi sem er núna og það er enginn vafi á því að þegar kemur að fjölmiðlalögum er nú betra tækifæri en nokkurn tímann áður að fara málefnalega yfir þá hluti. Það er undir okkur komið, sem hér erum, hvort við gerum það eða hvort við göngum frá fjölmiðlalögum sem vantar hryggjarstykkið í, sem þýðir að ekki verður hreyft við þessu í mjög langan tíma.

Það er mjög mikilvægt að við ræðum um eignarhald og tökum afstöðu til þess og það er algjörlega fráleitt að gera það ekki í þessu frumvarpi, það er fullkomlega fráleitt. Hvernig viljum við sjá þau mál? Einhverra hluta vegna er það nú þannig, svo að maður tali bara um hlutina eins og þeir eru, að fjársterkir aðilar sækja í að eiga fjölmiðla á Íslandi. Nú kynni einhver að segja: Það er vegna þess að afkoman er svo góð, en það er bara því miður ekki. Það er áhugavert að líta til þess hvernig ástandið var hér fyrir hrun en þá var það þannig að hver viðskiptablokk, þær voru nokkrar, átti sinn eigin fjölmiðil. Ég held að það sé ekki æskilegt að viðskiptablokkir sjái sig knúnar til þess, einhverra hluta vegna, að eiga sinn fjölmiðil, og ég held að sérstaklega þegar kemur að þessum stærri fjölmiðlum verðum við að hafa dreifða eignaraðild. Ég held að það sé ein af grundvallarforsendum þess að við sjáum góða fjölmiðlun í landinu.

Ég held að það hversu ung þjóð við erum komi fram í því hvernig fjölmiðlaumhverfið er. Ég ætla ekkert að taka neinn einstakan út en ég held að það skipti afskaplega miklu máli að við þróum umræðuhefðina hér á Íslandi betur og við gerum það meðal annars með breyttri fjölmiðlun. Mér finnst, eins og ég nefndi, afskaplega sérkennilegt að menn komi hér fram, eftir allt það sem á undan er gengið, eftir fjölmiðlalögin gömlu, eftir alla vinnuna sem unnin hefur verið í þessu í nefndum og ráðum og undirbúningshópum og öðru slíku, og hafi ekkert tekið á eignarhaldinu.

Síðan er hitt að upp er komið batteríi, einu eftirlitsbatteríinu í viðbót. Nú er í gangi, og það er miður, einhver töfralausn á öllum vandamálum. Lausnin felst í opinberri stofnun sem eigi að hafa eftirlit. Þetta nær allt hámarki í því að þegar fram kom mjög harkaleg gagnrýni á það sem hét Fjölmiðlastofa var ekki brugðist við því með því að fara yfir þá ákvörðun, endurskoða málið og nálgast það með öðrum hætti, heldur er skipt um nafn þannig að þetta heitir ekki lengur Fjölmiðlastofa heldur fjölmiðlanefnd. Þetta kostar enn tugi milljóna á ári og er enn með það hlutverk sem ég held að við séum ekki sátt við að hafa mikið eftirlit með fjölmiðlunum, með fjórða valdinu. Það er ekki leiðin að því að skapa góða fjölmiðlun eða góða umræðuhefð að hið opinbera sé í einhverju lögregluhlutverki gagnvart fjölmiðlunum. Það er eitthvað sem er varhugavert og eins og kemur fram í nefndaráliti minni hlutans eru einstök ákvæði í frumvarpinu óljós og opin fyrir túlkun hinnar opinberu eftirlitsstofnunar og starfsmanna hennar. Þá eru líka ráðherrum mennta- og menningarmála færð mikil völd yfir fjölmiðlum með heimild til setningar reglugerða.

Virðulegi forseti. Þetta er mjög alvarlegt og menn gætu sagt: Í okkar þjóðfélagi þurfa menn ekki að hafa áhyggjur af þessu, menn þurfa ekkert að hafa áhyggjur af því að svona hlutum verði nokkurn tíma misbeitt. En ég minni á það að margt af því sem við töldum að gæti ekki gerst gerðist samt sem áður. Við töldum hér, held ég flestir Íslendingar, að það gæti aldrei skeð að allir stóru bankarnir færu á hausinn. Það gerðist nú aldeilis og reyndar fóru litlu bankarnir á hausinn líka. Ég fullyrði að sá einstaklingur er vandfundinn sem trúði því.

Segjum að stjórnmálaskýrandi hefði teiknað upp efnahagsstefnu núverandi ríkisstjórnar, skattstefnu núverandi ríkisstjórnar, fyrir tveimur árum og sagt: Þetta mun gerast, svona mun skattstefna vinstri stjórnarinnar verða ef þeir komast til valda, Samfylkingin og Vinstri grænir. Ég held að ef einhver hefði sagt þetta fyrir tveimur árum hefði verið sagt að sá maður sem lýsti hlutum með þeim hætti væri að ýkja, hann væri að mála skrattann á vegginn og þetta væri einfaldlega ekki trúverðugt.

Það er bara þannig að þegar við semjum lög og erum búin að samþykkja þau eru þau komin til að vera. Við urðum fyrir barðinu á breskum lögum sem — það var reyndar varað við því að þeim væri hægt að misbeita og það var gert í breska þinginu. Þegar menn fluttu frumvarpið um hryðjuverkalögin í breska þinginu heyrðust þessar raddir: Heyrðu, þetta er svo vítt, menn geta notað þessi lög á eitthvað allt annað en hryðjuverk. Það var blásið á þær röksemdir og hver er niðurstaðan? Gordon Brown, í sínum pólitísku vandræðum innan lands, ákvað að búa til sitt eigið Falklandseyjastríð með því að beita hryðjuverkalöggjöfinni á Ísland.

Við erum að bjóða hættunni heim þegar við erum komin með eftirlitsnefnd — sama hvort hún heitir fjölmiðlanefnd, Fjölmiðlastofa, Fjölmiðlahús, eða hvaða tískunafni sem verður á eftirlitsstofnunum á ákveðnum tímapunkti — sem er með opin og óljós ákvæði. Við erum að bjóða hættunni heim með því að koma miklum völdum til stjórnmálamanna, þegar við færum þeim slík völd með þessum hætti, með lögum — og ég er ekki að vega að eða gagnrýna þann einstakling sem nú er mennta- og menningarmálaráðherra.

Menn segja kannski að á Íslandi geti ákveðnir hlutir ekki gerst en þá verðum við að hafa í huga að ýmislegt hefur gerst á Íslandi sem við töldum að aldrei myndi gerast. Ég nefndi skattamálin. Ef einhver hefði spáð fyrir um það hvernig þeim yrði fyrirkomið tveimur árum eftir að ríkisstjórnin tók við — ég fullyrði að sá sem hefði lýst því ástandi eins og það er nú hefði verið talinn ýkjumaður, svartsýnismaður og talinn vera að mála skrattann á vegginn.

Það er hægt að nefna margt fleira, t.d. vinnubrögðin í þinginu, hvað varðar svör við fyrirspurnum og öðru slíku, sem hefur tekið stórfelldum breytingum til hins verra. Ef menn hefðu lýst því fyrir tveimur árum að ástandið yrði eins og það er í dag hefði það sama verið uppi á teningnum, viðkomandi aðili hefði verið talinn ótrúverðugur sökum svartsýni, að hann væri að tala um hluti sem aldrei gætu gerst á Íslandi.

Virðulegi forseti. Það kvikna öll viðvörunarljós þegar ég sé þessi ákvæði um fjölmiðlanefnd. Við erum hér með frumvarp til fjölmiðlalaga og ekki er tekið á eignarhaldinu og ég hef ekki heyrt nein málefnaleg rök fyrir því að við ættum að láta það eiga sig. Mér heyrist að málflutningur meiri hlutans sé sá að það eigi að gera það einhvern tíma seinna. Þá hlýtur maður að spyrja: Af hverju í ósköpunum?

Virðulegi forseti. Ef ég hef rangt fyrir mér, ef fulltrúar meiri hlutans — og hér er einn fulltrúi meiri hlutans í þingsalnum — eru þeirrar skoðunar að ekki þurfi að taka á eignarhaldinu bið ég viðkomandi hv. þingmann að leiðrétta mig. Ég hef metið það þannig að þeir teldu þetta nauðsynlegt en það ætti ekki að gera það í þessari atrennu. Ef það er svo að ríkisstjórnin telji enga ástæðu til að taka á eignarhaldi væri gott að það kæmi fram.

Sama má segja um Ríkisútvarpið. Það bera allir flokkar ábyrgð hvað það varðar að ekki hefur tekist að klára það verkefni að skilgreina hvert hlutverk ríkisins eigi að vera á fjölmiðlamarkaði. Ég mundi ætla, alveg sama í hvaða flokki viðkomandi einstaklingur er, sama hvaða pólitísku lífsskoðun hann hefur, að allir væru sammála um að það væri skynsamlegt að hlutverk ríkisins á fjölmiðlamarkaði væri skilgreint, svo að menn þekktu það og gætu unnið eftir því. Nú má vel vera að það sé rangt hjá mér. Það getur vel verið að einhverjir stjórnmálamenn vilji ekki hafa það vel skilgreint, en ég mundi ætla að okkur mundi kannski greina á um hvort hlutverkið ætti að vera mikið eða lítið en ekki að það væri fullkomlega óskilgreint.

Það kemur fram í nefndaráliti hv. þingmanna Ragnheiðar Ríkharðsdóttur og Unnar Brár Konráðsdóttur að komið hafi fram í nefndinni dæmi um undirboð á auglýsingamarkaði hjá Ríkisútvarpinu og það eitt og sér ætti að kalla á að reglur yrðu settar um það. Rekstur fjölmiðla er erfiður, það er augljóst, menn geta séð fjölmörg dæmi um það að þeir fjölmiðlar sem við reiðum okkur á upp á hvern einasta dag berjast í bökkum og það er raunveruleg hætta á því að það verði mjög fáir aðilar sem segi okkur fréttir. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, þess vegna studdi ég gamla fjölmiðlafrumvarpið, að ég vil að margir segi okkur fréttir. Eðli máls samkvæmt er æskilegt að fréttaflutningur sé vandaður og góður en aðalatriðið er að ekki sé einhver markaðsleg einokun í fréttaflutningi.

Við erum að vísu, þökk sé internetinu, í þeirri góðu stöðu að geta sótt okkur upplýsingar um hluti í öðrum löndum, á alþjóðavettvangi, eftir ýmsum leiðum, en það krefst þess hins vegar að fólk hafi tíma. Þú verður að hafa tíma til að geta sett þig inn í hluti, geta leitað að hlutum o.s.frv., og það er tímasparnaður sem er eina ástæðan fyrir því að maður er jafnháður fréttum og raun ber vitni. Fólk hefur hvorki tíma né tækifæri til að setja sig inn í bakgrunn hverrar einustu fréttar sem birtist en besta leiðin til að maður fái sem skýrasta mynd af því sem er að gerast er að nokkur sjónarhorn komi fram. Það er ekki til neitt sem heitir hlutleysi, það er mjög misjafnt hvað fólki finnst. Það sem einum finnst réttlátt finnst öðrum ranglátt og það sem einum finnst rétt finnst öðrum rangt. Það eru svo sannarlega til ákveðnar staðreyndir sem eru óvefengjanlegar en það er svo sem hægt að túlka þær á ýmsa vegu. Öruggast fyrir okkur landsmenn er að það séu margir sem segja okkur fréttir og best er að þeir séu í samkeppni. Það er æskilegt að það fólk sé fjölbreytt og sé ekki alltaf sammála. Það er grundvöllurinn að lýðræðisþjóðfélagi.

Þess vegna, virðulegi forseti, skipta þessir hlutir gríðarlega miklu máli og allir eru sammála um það í orði kveðnu að fjölmiðlalög, eða umgjörð í kringum fjölmiðla, er eitthvað sem er mjög mikilvægt. Markmiðið, mundi ég ætla, væri hjá okkur öllum að hafa opna og frjálsa fjölmiðlaumræðu, gagnrýna og málefnalega, og það er einn af þeim þáttum sem við þurfum að ræða og hafa í huga almennt í þessu umhverfi að fólk sé varið gegn persónuníði og öðru slíku sem því miður hefur kannski skort á að undanförnu, kannski alltaf en sérstaklega að undanförnu. Til sögunnar er komin ný tækni sem er í eðli sínu mjög jákvæð, sem er internetið og ýmsar samskiptasíður og ýmislegt slíkt. Það er ekki leiðin að setja reglur eða eftirlit um slíka hluti, það er ekki leiðin. Við munum aldrei ná þessum markmiðum með því að vera með stór opinber batterí sem munu hafa eftirlit með þessum hlutum. En hins vegar verða allir að vera ábyrgir sinna gjörða, þar með talið sinna orða. Það er miklu skynsamlegri nálgun en það að treysta enn og aftur á opinberar eftirlitsstofnanir.

Það er bara einn galli við opinberar stofnanir og hann er sá að þar vinnur fólk og fólk á það sameiginlegt að það er breyskt og það gerir mistök. Hv. þingmenn hér inni gera meira að segja mistök. Ef við gerðum aldrei mistök væri margt miklu betra. Við erum að treysta um of á opinberar eftirlitsstofnanir. Við erum að stækka báknið alls staðar hvað þetta varðar, hér um nokkra tugi milljóna — við erum búin að setja Bankasýsluna á laggirnar, við erum búin að stækka mjög Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið og ýmsar opinberar stofnanir og ég fullyrði að að stórum hluta er þetta friðþæging en við höfum ekki farið í þá vinnu sem nauðsynleg er til þess að hafa einfaldar og skýrar reglur sem allir geta spilað eftir.

Ég get ekki séð annað en við séum nákvæmlega að fara sömu leið hér. Við erum að fara í eftirlit á sviði sem er mjög viðkvæmt, það snertir hvorki meira né minna en tjáningarfrelsið. Því miður höfum við séð mistök gerð, ef við orðum það kurteislega, hjá eftirlitsaðilum bæði í fortíð og nútíð. Það mun ekkert breytast. Þannig verður það alltaf.

Það væri því skelfileg niðurstaða, eftir alla þessa vinnu, eftir allan þennan undirbúning, að það væri þá helst það sem stæði upp úr að menn hefðu ekki tekið á eignarhaldinu, að menn hefðu ekki tekið á stöðu Ríkisútvarpsins, heldur hefðu menn fyrst og fremst náð að koma hér með opinbert eftirlitsbatterí með fjölmiðlum, eitthvað sem áður var kallað Fjölmiðlastofa. En til að koma til móts við gagnrýnina var nafninu breytt en ekki innihaldinu.