139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[15:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið sem var málefnalegt og gott. Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við ræðum þetta mál þannig. En af því að verið er að tala um eftirlitsnefnd, hv. þm. Skúli Helgason minnist á að það skipti máli að hún sé til staðar til að fylgja eftir reglunum og hún eigi bara að kosta 33 milljónir. Útvarpsnefnd kostar 10 milljónir á ári. Við vorum að setja á fót stofnun sem á að hafa eftirlit með bönkunum og í öllum niðurskurðinum, þeim blóðuga niðurskurði sem við vorum í fyrir jólin var ein stofnun sem fékk umtalsverða hækkun, 30%, og það var Bankasýslan. Það er eftirlitsstofnun.

Ég tók þessa umræðu upp líka þegar hún var sett á laggirnar. Þá var sagt að þetta mundi ekkert hækka. Þetta fór upp í, ég held að það sé komið upp í 80 eða 90 milljónir, ég man það ekki nákvæmlega, virðulegi forseti, en það var mun lægri upphæð og þá tók maður sömu ræðu. Það vantar t.d. alveg í fjármálamarkaðinn, hvert við ætlum að fara með hann. Það vantar t.d. reglur um eignarhaldið. Hvernig við viljum sjá bankakerfið, hvernig við viljum sjá sparisjóðakerfið. Það er nákvæmlega það sama hér. Hér ætla menn að setja á stofn eftirlitsnefnd en eiga eftir að taka á grunnþáttunum.

Bíðum, virðulegi forseti, klárum leikreglurnar, klárum eignarhaldið, klárum þetta með RÚV, tökum þetta saman. Reynum ekki að nálgast þetta þannig að við setjum fyrst upp eftirlitsbatteríið. Síðan mun koma gagnrýni á það og þá þurfum við stækka það. Ég get lofað því að forstöðumaður eftirlitsbatterísins, hvort sem það heitir stjórnsýslunefnd eða stofnun eða hvað það er, sá aðili mun koma og segja: Ég er bara með svo litla peninga þegar koma kvartanir. Það er það eina sem er algjörlega 100%, nákvæmlega sama og gerðist með Bankasýsluna.

Og um bankana, við erum ekki enn, tveimur árum eftir hrun, búin að fara í gegnum (Forseti hringir.) grunnleikreglurnar og það sama er upp á teningnum hér. Niðurstaðan er (Forseti hringir.) eftirlitsstofnun en ekki leikreglur.