139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[15:38]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við hv. þingmaður eigum það sameiginlegt að við viljum leiða til lykta þann ágreining sem uppi er um Ríkisútvarpið, um eignarhald á fjölmiðlum almennt og fyrirkomulag á auglýsingamarkaði fjölmiðla. Ég held að það liggi alveg fyrir, enda höfum við margoft rætt þessi mál, bæði hér og í nefndum sem við höfum báðir átt sæti í.

Mitt sjónarmið var einfaldlega það að ég hef talið betra og heppilegra verklag að taka þessa hluti alla saman til umfjöllunar í staðinn fyrir að gera það með þeim hætti sem hér er gert, fyrst að taka fyrir almenna rammalöggjöf um fjölmiðla en síðan að leggja fram og kynna nýtt frumvarp til laga um Ríkisútvarpið og bíða eftir því að nefnd skili af sér varðandi framtíðarfyrirkomulag um eignarhald. Þetta er bara mín skoðun, ég tel heillavænlegra að ræða þessi mál öll í samhengi.

Það er rétt hjá hv. þingmanni — ég þakka honum ábendinguna, hafði reyndar fengið hana áður — að í 26. gr. frumvarpsins er fjallað um að fjölmiðlaþjónustuveitendur skuli í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og virða tjáningarfrelsi, miðla fjölbreyttu efni og stuðla að því að mismunandi sjónarmið komi fram í umdeildum málum og almennt að tryggja að mismunandi sjónarmið komi fram. Ég varpaði því sjónarmiði hins vegar fram sem fram kom í minni ræðu að vonandi dekkaði 26. gr. (Forseti hringir.) þau sjónarmið sem ég nefndi og gera það að verkum að af þeim þurfi maður ekki að hafa áhyggjur. Mér þótti hins vegar rétt að (Forseti hringir.) velta þessu fram í umræðunni.