139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum enn nýja innstæðutryggingarkerfið sem menn hyggjast setja upp, þá að fenginni mjög slæmri reynslu af Icesave sem við greiðum einmitt atkvæði um á laugardaginn.

Það hefur margoft verið bent á að þetta innstæðutryggingarkerfi Evrópusambandsins er meingallað. Það má segja að það virki hvergi nokkurs staðar ef það verður „almennilegt“ bankahrun. Þá á ég við að ef hrynja eins og 20% af bankakerfi Þýskalands, Bretlands eða Hollands, þá mundu innstæðutryggingarkerfin eða skattgreiðendur viðkomandi lands ekki ráða við skellinn.

Þetta er kerfi sem gengur þokkalega þegar allt gengur huggulega. Þegar einn og einn sparisjóður eða minni banki fer á hausinn ræður þetta kerfi við það. Sem dæmi má nefna að í gamla innlánstryggingarkerfinu á Íslandi voru borguð inn 0,15% af innstæðum og að hámarki átti að vera í sjóðnum 1% sem þýddi að á tæpum sjö árum náðu innstæðutryggingar um 1% og þá átti að stöðva inngreiðslur. Það er þó ljóst að 1% af innstæðum dugar ekki langt ef banki fer á hausinn og ekki reynast eignir fyrir innstæðunum eins og getur gerst. Í tilskipuninni er ekki einu sinni gert ráð fyrir að innstæða hafi forgang og það er ekki gert ráð fyrir litlum efnahagssvæðum eins og Íslandi. Hér hefur svo sem margoft verið bent á að svona kerfi gangi ekki á Íslandi.

Ég benti á það í árslok 2008, stuttu eftir hrun, að leiðin væri sú að mynda einn innlánstryggingarsjóð fyrir alla Evrópu sem gæti þá tekið þessa áhættu og dreift henni nægilega mikið til að eitthvert vit sé í þessu kerfi. Eins lagði ég þá til að sá innlánstryggingarsjóður hefði umsjón með því að menn byðu ekki óeðlilega háa vexti á innlán í einhverjum ótta þegar lausafjárkreppa skylli á. Þá eru menn nefnilega jafnvel tilbúnir til að bjóða innlán með vöxtum sem eru hærri en á útlánum. Mér skilst að það hafi verið málið í Hollandi. Menn gátu sem sagt tekið lán með veði í innstæðunum og tappað af einhverjum vaxtamun. Það er fráleitt. Auk þess þyrftu innstæður að hafa forgang. Þetta lagði ég til á sínum tíma.

Evrópusambandið hefur farið öfuga leið með tilskipun 2009/14/EB sem hér er verið að innleiða. Þar eru mörkin hækkuð, þ.e. áhættan verður enn magnaðri, og útgreiðslutíminn er styttur. Það er kveðið á um það, frú forseti, að ríkið skuli sjá til þess að þetta kerfi virki. Það er náttúrlega allt annað en þegar myndaður er innlánstryggingarsjóður sem á að reyna að fá lán og þá væntanlega með veði í væntanlegum iðgjöldum fjármálakerfisins. Það var mjög ákveðið að þetta ætti að vera fjármagnað af bönkunum sjálfum en ekki skattgreiðendum. Það ætti sem sagt ekki að láta launþega, skattgreiðendur, greiða fyrir tap fjármagnseigenda en það er einmitt það sem Icesave gengur út á, að íslenskir skattgreiðendur, íslenskir launþegar, eru látnir borga fyrir fjármagnseigendur í Bretlandi og Hollandi. Það eru dálítið undarleg örlög fyrir vinstri stjórnina að standa að því að láta launþega borga fyrir fjármagnseigendur, eins og atkvæði verða greidd um á laugardaginn. Evrópusambandið gengur sem sagt lengra, hækkar mörkin o.s.frv.

Það sem mér finnst verst, frú forseti, er að ekki er búið að innleiða þessa tilskipun á Evrópska efnahagssvæðið. Við Íslendingar þurfum ekki að taka það upp. Það finnst mér verst og það sem mér finnst eiginlega sorglegt í þessu dæmi er að í frumvarpinu og eins í nefndaráliti meiri hlutans kemur skýrt fram að menn reikna með því að það sé ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi. Það hefur komið fram aftur og aftur í ræðum hv. þingmanna að það sé ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi. Þetta getur bara ekki staðist. Það getur ekki staðist, frú forseti, að það sé ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi. Hvers vegna segi ég það? Með því að lesa 41. gr. stjórnarskrárinnar. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum.“

Það þýðir að ef banki eða sparisjóður á Íslandi fer á hausinn og það er ekkert til í innstæðutryggingarsjóðum og einhver segir: Heyrðu, það er ríkisábyrgð á þessu, þá er ekki hægt að greiða þetta út vegna þess að það stendur hvergi í fjárlögum eða fjáraukalögum. Það er hvergi nokkurs staðar í fjárlögum eða fjáraukalögum að þessir 2 þús. milljarðar sem eru á innstæðureikningum á Íslandi séu með ríkisábyrgð. Það eru eingöngu orð einhvers fólks úti í bæ, reyndar hæstv. ráðherra, sem hefur lýst því yfir að það sé ríkisábyrgð. Það hefur að sjálfsögðu ekkert lagagildi þannig að sú forsenda sem er fyrir öllum þessum breytingum, þ.e. að það sé ríkisábyrgð á innstæðum, er ekki til og ég skora á hv. nefnd sem ég legg til að fjalli um þetta á milli 2. og 3. umr. að hætta við þetta vegna þess að þetta er stórhættulegt.

Það getur gerst að einhver banki fari á hausinn, einn af þessum þremur, það er nóg, og þá kemur allt í einu skellur upp á 400 milljarða, 500 milljarða á skattgreiðendur á Íslandi sem ekki eru sérdeilis vel undir það búnir, frú forseti. Það mundi væntanlega ríða mönnum að fullu. Ég sé ekki ástæðu fyrir þessu vegna þess að við þurfum ekki að innleiða þetta í okkar löggjöf. Við erum hluti af Evrópska efnahagssvæðinu og það er ekki búið að taka þetta upp, þökk sé andstöðu Norðmanna sem vilja reyndar ganga lengra, vilja tryggja meira og taka upp meiri áhættu. Ég held að hæstv. ríkisstjórn ætti að fara sem allra snarast og tala við Skandinavíu og búa til norrænan innlánstryggingarsjóð, bara sem allra fljótast, drífa sig á morgun. Þá yrði áhættunni eitthvað dreift fyrir öll Norðurlöndin því að Danmörk þolir ekki heldur að stærsti banki þeirra fari á hausinn. Danir þyldu það ekki, og ekki heldur Norðmenn, Svíar eða Finnar. Ekkert þessara landa mundi þola að stærsti bankinn færi á hausinn. Innlánstryggingin er draumaveröld sem menn eru að búa til, ákveðin firring, það er verið að plata innlánseigendur. Það er verið að segja við þá: Verið þið rólegir, elskurnar, þetta er allt saman tryggt. Það er það hins vegar ekki í reynd og það er ljótt að plata fólk, frú forseti.

Á þeim stutta tíma sem ég á eftir ætla ég að ræða um breytingartillögu sem nefndin gerir og það hvernig hún getur virkað öfugt. Hún leggur til að þriðji liður verði felldur niður þar sem fjallað er um viðbótariðgjaldið. Það þarf að skoða mjög nákvæmlega hvernig það er orðað í breytingartillögunni. Ég hef grun um að það vanti eitt eða tvö orð inn í það og ég mun koma því til hv. viðskiptanefndar að hún skoði nákvæmlega hvernig það ætti að vera orðað þannig að það sleppi, en eins og það er orðað núna stendur:

„Fjármálaeftirlitið reiknar út áhættustuðul hverrar innlánsstofnunar og tilkynnir sjóðnum um breytingar á áhættustuðli þegar slíkar breytingar eru gerðar. Áhættustuðull skal lægst hafa gildið 0 en hæst gildið 1 og skal iðgjald skv. 2. mgr. margfaldað með stuðli viðkomandi innlánsstofnunar.“

Það vantar að segja þarna að þetta sé breytilega iðgjaldið en ekki iðgjaldið í heild. Til að koma í veg fyrir allan lagamisskilning leggjum við til að nefndin leggist dálítið yfir þetta, breytingu á 4. mgr. sem verður 3. mgr. af því að ein málsgrein er felld út, og menn skoði það nákvæmlega að ekki sé nein villa þarna.

Ég legg áherslu á að þetta frumvarp byggir á falskri forsendu þess að það sé ríkisábyrgð á öllum innstæðum á Íslandi. Það sem byggir á fölskum forsendum eiga menn að skoða sérstaklega og ef það reynist svo eiga menn að hætta við það og byggja á réttum forsendum.