139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:57]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Margt hefur verið sagt í þessu máli en í rauninni er alltaf verið að hamra á sömu hlutunum. Ástæðan fyrir því er að ekki hafa komið fram nein málefnaleg rök gegn því sem við höfum sagt. Málið hefur ekki fengið þá athygli sem það ætti að fá og þess vegna getur það runnið í gegnum þingið og er þá enn eitt dæmið um risamál sem rennur í gegn vegna þess að hv. þingmenn meiri hlutans neita að horfast í augu við staðreyndir og ætla að vona hið besta.

Ég ætla að nálgast þetta með svolítið öðrum hætti en ég hef gert áður. Ég ætla að útskýra hvernig stóra myndin er í rauninni. Hún er einfaldlega þannig að hér erum við að setja upp tryggingakerfi vegna ákvörðunar Evrópusambandsins. Þessu má líkja við að ég og hv. þm. Magnús Orri Schram og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson mundum ákveða að stofna tryggingafélag til að tryggja bílana okkar. Við ætluðum bara að setja lítið iðgjald, við þrír, og tryggja síðan bílana okkar. Ég held að við eigum ekkert sérstaklega merkilega bíla en ef einn af bílunum okkar mundi eyðileggjast yrði ekkert til í sjóðnum. Ef við þrír tækjum okkur saman með þúsund öðrum og borguðum sama iðgjald gætum við alveg þolað að einn og einn bíll mundi eyðileggist eða skemmast en við getum það ekki þegar við erum þrír. Þá er áhættan ekki dreifð. Trygging gengur út á að dreifa áhættu.

Ég er búinn að fá nýjustu upplýsingar, virðulegi forseti, um hlutfall innlána hjá bönkunum á Íslandi. Landsbankinn er nú með 29% innlána eftir að hann tók yfir Sparisjóð Keflavíkur. Arion banki er með 33% og Íslandsbanki með 22%. Samanlagt er þetta 84% af heildarinnlánum. En síðan er einn banki eða sparisjóður sem á örugglega eftir að vera komið fyrir hjá einhverjum af þessum bönkum og hann er með 9% innlán. Ef við gefum okkur, sem ekki er ólíklegt, að hann renni inn í einn af þessum bönkum yrði talan 93% hjá bönkunum þremur. Hvort hlutfallið sé 84% eða 93% er kannski ekki stóra málið. Síðan erum við með MP-banka en að vísu komu þær gleðilegu fréttir að erlendir fjárfestar hefðu keypt sig inn í hann og tekið yfir og það er svolítið merkilegt af því að menn hafa spáð því að enginn útlendingur vilji fjárfesta hér nema við samþykkjum Icesave en það er annað mál.

Í minnisblaði hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra kemur fram að kerfið sé fyrst og fremst hugsað fyrir aðra en þessa þrjá stóru. Þá erum við að hugsa þetta fyrir kannski 7%, í besta falli 16% af kerfinu, 7–16%. Virðulegi forseti. Þetta gengur ekki upp. Þetta er fullkomlega óskiljanlegt. Í nefndinni munum við fara betur yfir þetta því við hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og stjórnarandstæðingar höfum farið fram á að þetta verði tekið fyrir í hv. viðskiptanefnd á milli umræðna. Það er óskiljanlegt af hverju hæstv. ráðherra hefur ekki bent á þessar augljósu staðreyndir og reynt að fá einhverja aðra úrlausn mála fyrir Íslendinga á þeim vettvangi þar sem við vinnum með Evrópuþjóðum. Ástæðan fyrir því að þetta er ekki komið inn í EES-samninginn er einfaldlega sú að ein vinaþjóð okkar, Norðmenn, hikar ekki við að gæta hagsmuna sinna sem eru að vísu öndverðir við okkar vegna þess að þeir eiga svo gríðarlega mikla fjármuni að þeir vilja setja hærri innstæðutryggingu, telja sig hafa efni á því. En við, virðulegi forseti, erum með hæstv. ríkisstjórn sem ekki hefur séð neina ástæðu til að gæta (Forseti hringir.) hagsmuna Íslendinga í þessu máli.