139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:03]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þau skoðanaskipti sem hafa átt sér stað um þetta frumvarp. Ég get ekki setið á mér að blanda mér aðeins í þessa umræðu vegna þess að mér finnst menn greina á um nokkur grundvallaratriði og ég vil þá fá að viðra hér öndverð sjónarmið.

Við sitjum uppi með yfirlýsingu ríkisstjórnar Íslands um að ríkisábyrgð sé á öllum innstæðum í lendingu. Er þessi yfirlýsing lögleg eða ekki lögleg? Hún stendur þó að menn geti deilt um það. Við hana er miðað og fram hjá henni komumst við ekki.

Hvað vill hv. þingmaður gera til að losa Ísland undan þeirri yfirlýsingu sem nú gildir á öllum innstæðum hér á landi, hversu háar eða lágar sem þær eru og hver svo sem á þær, hvort það er fyrirtæki, þ.e. lögaðili, eða einstaklingur? Telur hv. þingmaður ekki hyggilegt að reyna að komast út úr þessari yfirlýsingu til að koma í veg fyrir þann freistnivanda sem ríkir innan bankakerfisins og að ríkissjóður þurfi að yfirtaka alla þá bankastarfsemi sem aflaga getur farið? Það er ljóst að ef við horfum til samevrópsks tryggingakerfis og þess að það geti leyst vanda okkar verður það í fyrsta lagi að veruleika árið 2014, eins og fram kom í nefndinni. Hvað mundi hv. þingmaður vilja gera næstu þrjú árin?

Mig langar einnig að spyrja hv. þingmann: Skýtur það ekki eilítið skökku við að menn kalli eftir samráði á samevrópskum grundvelli um samstarf á sviði bankamála, innstæðutrygginga, við nágrannaþjóðir okkar en treysti sér ekki til að styðja við samning sem ríkisstjórn Íslands hefur gengið frá? Fulltrúar allra flokka fóru í samninganefnd og gengu frá samningi um Icesave-samninginn en nú eru menn að hoppa frá því samkomulagi og treysta sér ekki til þess að standa við það. Heldur hv. þingmaður að nokkur þjóð vilji setjast niður með okkur á nýjan leik ef það er ekki einu sinni hægt að gera samninga um uppgjör (Forseti hringir.) í anda þeirrar yfirlýsingar sem ríkisstjórnin gaf?