139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:12]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur svo sem margt og flest verið sagt um það frumvarp sem hér er til umfjöllunar sem hefur það að markmiði að setja upp nýtt kerfi fyrir innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Vandinn er sá að þetta frumvarp gengur ekki upp. Það nær ekki þeim markmiðum sem að er stefnt.

Strax í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins er markmiðið það að veita eigendum innstæðna í bankakerfinu vernd, tryggja það að falli einhver viðskiptabanki þurfi þeir sem eru með innstæður sínar þar á reikningum, hvort sem það eru kjörbækur eða venjulegir tékkareikningar, ekki að hafa neinar áhyggjur, til staðar sé tryggingakerfi sem verndi innstæður þeirra.

Gallinn er hins vegar sá að við höfum hér þrjá stóra viðskiptabanka sem hafa um 85–90% markaðshlutdeild. Miðað við þær iðgjaldagreiðslur sem frumvarpið mælir fyrir um, og það er þá sjóðsöfnun sem það gerir ráð fyrir, tekur rétt tæpa öld að safna upp þeim sjóði sem tryggir innstæður viðskiptavina eins banka falli hann. Þetta er vandi þessa máls í hnotskurn, þ.e. að eigi kerfið að ganga upp skulum við bara vona að það gerist ekkert í 97 eða 98 ár í bankakerfinu, það verði engin áföll, vegna þess að það verður ekki fyrr en að þeim tíma liðnum sem innstæðueigendur geta verið öruggir um sig.

Þess vegna höfum við sagt hér að í þessu frumvarpi felist fölsk vernd, þetta sé sýndarvernd sem gangi ekki upp. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur orðað það þannig að með þessu frumvarpi sé verið að plata fólk. Það er auðvitað það sem málið snýst um, það er verið að veita fólki falska öryggiskennd.

Við höfum ítrekað óskað eftir upplýsingum um það frá hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra og hv. þingmönnum sem mæla fyrir þessu máli að þeir útskýri fyrir okkur á mannamáli hvernig þeir sjá fyrir sér að þetta fyrirkomulag muni ganga, en við höfum ekki fengið nein svör. Einu svörin sem við fáum við þessum spurningum eru spurningar á móti, eins og frá hv. þm. Magnúsi Orra Schram: Hvað viljið þið þá gera fyrst þið viljið ekki fallast á þetta frumvarp? Hvernig viljið þið að ríkisstjórnin komist frá þeirri yfirlýsingu sinni að innstæður allra á Íslandi séu tryggðar?

Þetta eru auðvitað engin svör við þeim kjarnaspurningum sem við höfum varpað fram. Það stendur enn upp á þá sem mæla fyrir þessu frumvarpi að útskýra þessa hluti. Það hafa þeir ekki gert og þeim hefur ekki lánast að sýna fram á hvernig þessu frumvarpi tekst að ná því markmiði sem að er stefnt.

Ég tel, virðulegi forseti, að það þurfi að hugsa þessi mál algjörlega upp á nýtt. Við höfum tíma til þess vegna þess að frumvarpið sem hér er til umfjöllunar byggir á tilskipun Evrópusambandsins sem hefur enn ekki verið tekin upp í EES-samninginn. Þar af leiðandi höfum við tækifæri og tíma til að reyna að hugsa þetta mál upp á nýtt. Það hvílir gríðarlega mikil skylda á þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna að gera það vegna þess að þetta mál varðar svo gríðarlega hagsmuni, miklu meiri hagsmuni en mörg önnur mál sem hér hafa verið til umfjöllunar á síðustu mánuðum og missirum. Það er í rauninni ótrúlegt hvað þetta mál hefur fengið litla umfjöllun, m.a. í fjölmiðlum, miðað við það hvað það varðar almenning á Íslandi miklu.

Ég fullyrði að þetta frumvarp er eitt það versta sem hefur ratað á fjörur þingsins á þessu ári og á síðustu árum, og sér þá ekki á svörtu. Ég legg til að við tökum okkur tíma, forusta viðskiptanefndar taki sér tíma til að ræða milli 2. og 3. umr. til hvaða úrræða við getum gripið, hvaða leiðir við getum farið til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt, einhverjar leiðir sem þó eru raunhæfar og ganga upp. Það gerir þetta (Forseti hringir.) frumvarp ekki.