139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:19]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er andsnúinn ríkisábyrgð á bankakerfi. Ég er andsnúinn því að ríkið beri ábyrgð á íslenska bankakerfinu og ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér um að þannig eigi ekki að haga málum. Ég hygg að reynslan sýni okkur að þannig viljum við ekki hafa það og ég lít svo á að ekki sé ríkisábyrgð á starfsemi bankanna nema Landsbankanum vegna þess að hann er í eigu ríkisins. Ríkið ber skyldur gagnvart honum en ekki gagnvart hinum bönkunum sem ríkið er ekki hluthafi eða eigandi að. Ég get ekki svarað þeirri spurningu hvernig það verður í framtíðinni ef banki fellur og hvort ég sem aðili í einhverri stöðu vilji þá bregðast við og verja bankann falli. Það kann vel að vera að einhverjar aðstæður réttlæti slíkt en ekki er hægt að svara slíkum spurningum.

Varðandi yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að allar innstæður séu tryggðar þá er sú yfirlýsing bara yfirlýsing, ekkert annað. Hún hefur enga stoð í lögum neins staðar. Á Alþingi hafa ekki verið samþykkt lög um að ríkið ábyrgist allar innstæður og ef á það reynir fyrir dómi, t.d. hvort gengið yrði eftir því að efna þá yfirlýsingu, skal ég ekki segja hvernig slíkt mál færi. Þannig er staða þessarar yfirlýsingar, hvorki meira né minna. Hún liggur fyrir en hefur ekkert lagalegt gildi.