139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:21]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri ekki betur á málflutningi sjálfstæðismanna í dag en að þeir líti svo á að yfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks haustið 2008 sem og yfirlýsing ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, þær séu í raun og veru ekki í gildi, ómarktækar og ólöglegar. Ágætt er að það komi fram en fréttin í umræðunni er þá kannski að þetta sé álit Sjálfstæðisflokksins. Það er einkennilegt.

Ríkið á ekki að bera ábyrgð á bankastarfsemi á Íslandi, ég er hjartanlega sammála því. Við eigum þess vegna að reyna að feta okkur út úr þeirri stöðu. Frumvarpið sem hér er rætt er besta leiðin í núverandi stöðu til að komast út úr þeim vanda. Við höfum verið með þetta mál til umræðu í viðskiptanefnd frá haustinu 2009 og rætt málið ítarlega í þessum sal og ekki síður á vettvangi nefndarinnar. Það er búið að margræða þetta. Nú er komið að því að taka ákvörðun. Nú er komið að því að safna peningum í sjóð svo við getum á næstu árum búið til tryggingarsjóð en veljum ekki að kasta fjármunum á glæ með því að innheimta ekki næga peninga af bankakerfinu.

Eins og staðan er í dag er greitt eftir á. Ekki er verið að greiða nógu hátt, iðgjaldið er ekki áhættuvegið eins og hér er lagt til og eins og staðan er í dag tryggjum við allar innstæður upp í topp, helstu innlán fyrirtækja, eins og ég hef víða rakið.

Mestu and-Evrópusinnar þessa þinghalds hafa ítrekað fullyrt í þessari umræðu að leita beri til Evrópu til að sækja aðstoð við að setja á stofn nýjan innstæðutryggingarsjóð. Helstu talsmenn þess að Ísland eigi ekki erindi í frekara samstarf við Evrópuþjóðir, t.d. á sviði myntmála, reka fyrir því áróður í þessum sal að nú eigum við að fara til Evrópu og fá þá til að hjálpa okkur við að styðja við bankakerfið okkar. Við skulum byrja á heimavelli okkar, byrja í heimagarði og ganga frá okkar málum. Það gerum við með þessu frumvarpi.