139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:23]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður má ekki misskilja mig varðandi yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að innstæður séu tryggðar. Yfirlýsingin er ekki ólögleg að mínu mati eins og hv. þingmaður hélt fram, hún er að mínu mati í gildi en hún er bara yfirlýsing. (MSch: ... sér ekki lagastoð?) Nei, þessi yfirlýsing á sér hvergi lagastoð. Ef hv. þingmaður væri tilbúinn til að taka sér lagasafnið í hönd og fletta því þá gæti hann hvergi fundið þessari yfirlýsingu lagastoð hvort sem er í fjárlögum, fjárreiðulögum eða sérstökum lögum um yfirlýsinguna. Það veit hv. þingmaður eða á a.m.k. að vita og ég veit að hæstv. menntamálaráðherra sem situr í salnum núna er fullkunnugt um þetta. Yfirlýsing á sér enga lagastoð, þannig er það. En hún er í gildi.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að við eigum að hafa einhvers konar tryggingakerfi fyrir innstæðueigendur. Ég held að ég og hv. þingmaður séum alveg sammála um að það sé mikilvægt en ekki með þeim hætti sem frumvarpið kveður á um vegna þess að það veitir enga vernd. Það tekur 97 ár eða upp undir heila öld að safna í þennan sjóð til að tryggja innstæður eins viðskiptabanka við fall hans. Getur hv. þingmaður útskýrt fyrir mér í stuttu máli, því ég veit að hann hefur heimild til að halda fleiri ræður, hvernig hann sér fyrir sér að frumvarpið geti náð þeim tilgangi sínum að veita eigendum innstæðna í innlánssjóðum þá vernd sem að er stefnt? Það hefur hv. þingmaður ekki gert í umræðunni af einni ástæðu: Hann getur það ekki.