139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:31]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að fá að gera tvær örstuttar athugasemdir við ræðu hv. þingmanns. Við höfum nú skipst á skoðunum um málið þó nokkuð lengi og fjölmargt mætti svo sem ræða, en mig langar að nefna bara tvennt. Í fyrsta lagi þetta:

Íslenskt bankakerfi býr við það í dag að þau lög gilda um gjaldþrotastöðu bankanna að innlán njóta forgangs ef til þrotabús eða slita kemur. Þess vegna sleppum við með að ekkert sé til í innstæðutryggingarsjóðnum hvað varðar íslenskar innstæður. Við komumst hjá því að leita á náðir innstæðutryggingarsjóðsins vegna þess að innlánin njóta forgangs. Það er sem sagt ekki þannig varðandi útibúin og þess vegna er leitað til innstæðutryggingarsjóðsins í tengslum við Icesave.

Það sem ég ætla að segja í framhaldinu er að til þess að bankarnir geti fjármagnað sig og ekki bara að byggja fjármögnun sína á innlánum hafa þeir gefið út veðtryggð skuldabréf sem njóta forgangs fram yfir innstæðurnar. Það er í raun eina fjármögnunarleið bankanna í dag, veðtryggð skuldabréf sem njóta forgangs fram yfir innstæðurnar. Fyrst það er staðan mun reyna á innstæðutryggingarsjóðinn í framtíðinni frekar en gerir í dag. Það þýðir að við þurfum að safna í innstæðutryggingarsjóð vegna stöðu málsins.

Menn vilja samevrópskt tryggingakerfi og telja að það sé hyggilegasti kosturinn fyrir Íslendinga í dag. Það getur vel farið svo. En það þýðir þá um leið að við ætlum að taka ábyrgð á írskum bönkum, portúgölskum bönkum, spænskum bönkum, og iðgjöldin sem innheimt verða á Íslandi, hvort sem það eru 1,5 milljarðar eða 2,5 milljarðar eða 7 milljarðar, fara þá í að standa skil á því ef bankar þeirra landa falla. Er það hyggilegt að svo komnu máli?