139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:33]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir stöðuna. Innlánin njóta forgangs en bankarnir fá ekki fjármögnun nema fjármögnun njóti forgangs.

Til dæmis nýtur stóra skuldabréfið, ég man ekki hvort það var 170 milljarðar, jafnvel enn þá hærra, hv. þingmaður leiðréttir mig þá, alla vega nýtur stórt skuldabréf á Landsbankann forgangs fram yfir innstæðurnar. Þá segir hv. þingmaður: Heyrðu, við verðum að fara að safna. Hækkum þá iðgjaldið því að þetta er bara dropi í hafið. Við erum með innstæðutryggingarsjóð sem ábyrgist 20 þúsund evrur. Við getum alveg hækkað iðgjaldið, við getum tvöfaldað, þrefaldað það, við getum gert það sem segir í frumvarpinu.

Við þurfum ekki að fara upp í 100 þúsund evrur, það er fullkomlega galið, í 16 milljónir á reikning. Það sér það hver maður.

Ef við förum í samstarf við aðrar þjóðir eins og t.d. Evrópuþjóðirnar þannig að við þurfum að taka ábyrgð á öðrum bönkum mundi innstæðutryggingarkerfið væntanlega gera það. Það væri náttúrlega æskilegast og eina vitið og það væri þá einhver hófleg upphæð. En Írar fóru aðra leið en við og írskir skattgreiðendur bera ábyrgð á írskum bönkum. Það er það ískyggilega við stöðuna hjá vinum okkar Írum.

Við fórum þá leið að taka skellinn. Við létum bankana fara á hausinn. Við hefðum getað farið írsku leiðina að hluta til, kannski að öllu leyti, ég veit það ekki, og þá værum við í enn þá verri málum. Um það er skrifað um í öllum þeim blöðum sem fjalla um svona mál. Ef maður les Financial Times, The Economist og annað slíkt sér maður að menn telja að það hafi verið mjög skynsamlegt og hyggilegt hjá Íslendingum að fara þessa leiðina en ekki írsku leiðina. En við erum í þeirri stöðu að meiri hluti þingmanna ákvað að taka þann einstakling sem mesta ber ábyrgð á því að hafa farið íslensku leiðina að nú eru sett hundruð milljóna í það að reyna að koma honum í fangelsi, jafngalið og það er nú.