139. löggjafarþing — 107. fundur,  7. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:37]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni í það minnsta hvað eitt varðar og það er að núverandi staða er ekki góð. En þrátt fyrir að núverandi staða sé ekki góð er lausnin ekki sú að gera bara eitthvað. Við erum búin að ræða þetta mál síðan haustið 2009 og enn eru ekki komin með svör við augljósum spurningum. Það er stór fíll í salnum og menn geta ekki látið eins og hann sé ekki til með því að horfa ekki á hann. Ef menn vilja hækka iðgjaldið í núverandi sjóð á auðvitað að gera það.

Það felur fyrst og fremst í sér falska vernd að fara þessa leið. Það er reyndar miklu verra en fölsk vernd, við erum þá að skuldbinda ríkissjóð með því orðalagi að ríkissjóður verði að fjármagna sjóðinn ef verði hann fyrir áföllum. Eins og hv. þingmaður er búinn að fara oft yfir eru 7 milljarðar greiddir í sjóðinn á ári. Heildareignir bankakerfisins eru ein þjóðarframleiðsla, 1.500 milljarðar. Síðan getur hver fyrir sig reiknað hvað það tekur langan tíma að mæta áföllum með þeirri sjóðasöfnun sem hér er vísað til.

Ég held að það sé mjög gott að skilgreina vel hvað eigi að vernda. Ég held hins vegar að við eigum að vernda minna og mun lægri upphæðir. Ég held að það sé aðalatriði í stóra samhenginu að við lítum raunhæft á það hver staða bankakerfisins er og hvernig við viljum sjá það í framtíðinni, en við höfum alltaf ýtt því á undan okkur. Við gerðum það í lögum um fjármálafyrirtæki, við gerðum það í lögum um sparisjóði fyrir tveimur árum sem voru afgreidd á nokkrum dögum, og við erum ekki enn þá, tveimur árum seinna, búin að átta okkur á því hvað við ætlum að gera við sparisjóðina, svo ég taki bara eitt dæmi.

Síðan það var gert hefur ekki verið svarað ýmsum grundvallarspurningum og búið er að setja nokkur hundruð milljarða án mikillar umræðu (Forseti hringir.) í fjármálastofnanir.