139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

uppgjör Icesave-málsins.

[15:04]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er mikilvægt að við stöndum nú saman um að gera svar Íslands sem best úr garði og að við sameinumst um að halda á lofti hagsmunum Íslands og þeim réttmætu sjónarmiðum sem við getum teflt fram í þessu máli.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður rekur, það stefnir í að þrotabú Landsbanka Íslands standi undir öllum þorra krafna Breta og Hollendinga og jafnvel öllum kröfunum sem þeir hafa lýst í búið. Þegar af þeirri ástæðu hlýtur að vera mikið umhugsunarefni hvort einhvern tímann geti reynt á það hvort íslensk stjórnvöld eigi að bæta einhverjar fjárhæðir sem ekki fást endurkrafðar. Það er mjög mikilvægt í svarinu til Eftirlitsstofnunar EFTA að við setjum þessi sjónarmið skýrt fram og útskýrum líka að með því að innstæður voru gerðar að forgangskröfum gerðum við í neyðarlögunum allt sem hægt var til að tryggja að innstæðueigendur biðu ekki tjón af og innstæðutryggingarsjóðir fengju sínar kröfur til fulls. Það er enn fremur mikilvægt að halda til haga þeim fordæmislausu aðstæðum sem voru á Íslandi í vetrarbyrjun 2008 og hefur verið viðurkennt á vettvangi Evrópusambandsins að voru fordæmislausar með öllu. Þetta verður að vera grunnur okkar málflutnings. Við verðum að halda til haga grundvallarstaðreyndum í þessu máli og ég hlakka til að fara yfir drög að svari og málafylgju Íslands að öðru leyti með utanríkismálanefnd.