139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

uppgjör Icesave-málsins.

[15:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég tel það mikið grundvallaratriði í þessu máli á þessu stigi að við leiðum viðmælendum okkar það fyrir sjónir, bæði Bretum og Hollendingum og eins Eftirlitsstofnun EFTA, að ef við gefum okkur tíma núna til að leiða í ljós að hve miklu leyti eignirnar eru til staðar til að mæta þeim kröfum sem haldið hefur verið á lofti frá árinu 2008 getum við forðað óþarfaágreiningi og milliríkjadeilu sem hefur varað allt of lengi.

Fyrir mitt leyti get ég sagt að það hefur auðvitað á vissan hátt verið algerlega óskiljanlegt hve óþreyjufullir Bretar og Hollendingar hafa verið að leyfa þessu að koma í ljós, en það er sá veruleiki sem við höfum staðið frammi fyrir frá árinu 2008 og höfum verið að glíma við. Núna held ég að það sé nýtt tækifæri til að leiða öllum þessum aðilum (Forseti hringir.) það fyrir sjónir að best væri að málið fengi að hafa sinn gang í rólegheitum.