139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

endurskoðun stefnu ríkisstjórnarinnar.

[15:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í kjölfarið á orðaskiptum síðustu ræðumanna er áhugavert að velta fyrir sér af hverju í ósköpunum þessir aðilar og margir aðrir hafi sóst eftir ríkisábyrgð á fjárhæðunum. Við höfum mörg talað fyrir því að ekkert lægi á í þessu máli, að það væri skynsamlegast að fara varlega, að allir væru smátt og smátt að verða sammála um það, og kannski ekki síst að ef til væru svo miklar eignir í þrotabúinu sem margir hafa talað um og vonast er til að sé rétt væri ríkisábyrgð óþörf.

Það er samt ekki það sem ég ætlaði að ræða við hæstv. fjármálaráðherra. Í ljósi þess að Icesave-málið fór fyrir dóm þjóðarinnar og þjóðin gerði það að verkum að stjórnarstefnan var sett af, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði í gær, og ríkisstjórnin er nú komin með stefnu stjórnarandstöðunnar langaði mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort ríkisstjórnin velti því fyrir sér að hún þyrfti að taka upp stefnu stjórnarandstöðunnar eða aðra stefnu í öðrum málum. Ég ætla að rökstyðja það aðeins og biðja fjármálaráðherra að svara svo. Talsvert hefur verið talað um að endurskoða þyrfti efnahagsstefnu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkisstjórnarinnar um ofurskattstefnu og niðurskurð, ekki síst í heilbrigðismálum. Við framsóknarmenn höfum mikið talað fyrir því að það þurfi að stækka hagkerfið, efla atvinnuna, minnka atvinnuleysið og setja fjármagn í mannaflsfrekari framkvæmdir. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um þá 26 milljarða sem menn ætluðu sér að greiða Icesave-vextina með. Kemur til greina að þeir fari í mannaflsfrekar framkvæmdir á Íslandi, t.d. í Búðarhálsvirkjun eða samgöngubætur um land allt eða annað í þeim dúr? Það væri hægt að nefna fleiri hluti sem væri hægt að spyrja hæstv. ráðherra um hvort menn væru að íhuga (Forseti hringir.) að taka upp breytta stefnu í því að þjóðin virðist kalla eftir slíku.