139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu og ESB-umsókn.

[15:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi ekki haft eyrun sperrt þegar hv. þm. Bjarni Benediktsson talaði áðan. Af máli hans mátti ráða að bara með því að bíða svolitla stund mundi málið leysast af sjálfu sér. Þá þurfum við væntanlega ekki að hafa neinar áhyggjur af því að það setji steina í götu Evrópusambandsaðildarumsóknarinnar.

Ég er að öðru leyti þakklátur hv. þingmanni fyrir að hafa áhyggjur af því máli en ég get hins vegar trúað henni fyrir því að það er ekki bara mín skoðun að þetta hafi ekki nein formleg áhrif á umsóknina. Í morgun kom yfirlýsing frá stækkunarstjóranum og frá öðrum framkvæmdastjóra líka þar sem þeir tóku skýrt fram að þarna væri um tvö algjörlega aðgreind og aðskilin ferli að ræða. Það er það sama og hver einasti forustumaður Evrópusambandsins undanfarin fjögur missiri hefur tekið skýrt fram.

Þessi tvö mál eru eðlisóskyld. Annars vegar er um að ræða umsókn þjóðar að sambandi þessara ríkja. Hins vegar er um tvíhliða ágreiningsefni á milli Íslands og þessara þjóða að ræða. Það kann vel að vera að á einhverjum stöðum komi upp vandræði vegna þessa máls og að einstakir stjórnmálamenn í þessum löndum vilji tengja þetta tvennt. Á síðasta kjörtímabili í Hollandi voru á einum og sama tímanum þrjár tillögur fyrir hollenska þinginu um að tengja þessi mál. Að minnsta kosti einn hollenskur þingmaður hefur þráfaldlega viljað tengja þau alveg eins og þrír eða fjórir skoskir þingmenn hafa í aðdraganda skosku þingkosninganna viljað tengja makríldeiluna við umsóknina. Ég held hins vegar sjálfur að ekkert bendi til þess að þetta mál tengist umsókninni og ég vona að það sé rétt hjá hv. (Forseti hringir.) formanni Sjálfstæðisflokksins að málið leysist af sjálfu sér og þá frekar (Forseti hringir.) fyrr en síðar.