139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

framhald ESB-umsóknarferlis.

[15:23]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það áður í þinginu að hæstv. utanríkisráðherra sé langbest til þess fallinn að túlka stefnu Framsóknarflokksins og hann slær ekkert af í dag frekar en fyrri daginn.

Hann kom upp í andsvar áðan og sagði að stækkunarstjórinn og annar ónafngreindur embættismaður hjá ESB teldu að atkvæðagreiðslan um helgina hefði ekki áhrif á ESB-umsóknina. En í Daily Telegraph segir í dag að bæði Bretar og Hollendingar muni að öllum líkindum koma í veg fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu og að einn ráðgjafi forsætisráðherra Hollands í Icesave-deilunni telji að enginn möguleiki sé á því að Ísland fái aðild að Evrópusambandinu eftir að þjóðin hafnaði eftirminnilega Icesave-samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni — og óska ég öllum til hamingju með það, skynsemi þjóðarinnar.

Framsóknarmenn samþykktu um helgina að hag Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins. (Gripið fram í.)

Í kjölfarið á þessu langar mig til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvaða framhald hann sjái raunverulega fyrir sér í aðlögunarferlinu að ESB. Telur ráðherrann ekki glórulaust að halda ferlinu áfram? Að lokum langar mig til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra að þessu: Eru ekki mjög miklar líkur orðnar á því að Evrópusambandið slíti sjálft þessum viðræðum?