139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

hagsmunir Íslands í Icesave-málinu.

[15:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er hluti af starfsskyldum stjórnvalda m.a. og ekki síst þess sem fer með fjármálaráðuneytið hverju sinni að gæta hagsmuna ríkisins og standa fyrir málsvörnum þess fyrir dómstólum. Það gera ráðherrarnir yfirleitt ekki sjálfir heldur ráða þeir til þess færa lögmenn og lögmenn eru eins og kunnugt er sérfræðingar í að verja hvern þann málstað sem þeir eru ráðnir til að verja (Gripið fram í: Og fá borgað …) og fá borgað vel fyrir. Það þarf ekki að segja hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni þetta.

Það verður ekkert öðruvísi með þetta mál en fjöldamörg önnur sem íslenska ríkið stendur núna frammi fyrir að þurfa að taka til varna í. Myndað verður öflugt teymi, eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fór reyndar rækilega yfir áðan, og haft samráð um það við utanríkismálanefnd og væntanlega forustumenn stjórnmálaflokka hvernig þetta verður allt undirbúið af okkar hálfu. Fyrst um sinn er þó mikilvægast að koma sem mestum og réttustum upplýsingum á framfæri og tími stjórnvalda undanfarinn sólarhring hefur að mestu leyti farið í það. Um það hafa menn sammælst og allir verið sammála að koma því á framfæri að búið sjálft muni ráða við að greiða langstærstan ef ekki allan hluta fjárhæðarinnar og það styttist í útgreiðslur þaðan o.s.frv. þannig að misskilningur og rangtúlkanir af því tagi sem aðeins bar á í fjölmiðlum sérstaklega í byrjun dagsins í gær vaði ekki uppi að Bretar og Hollendingar eða forgangskröfuhafarnir fari ekki að fá greiðslur upp í þær.

Það er auðvitað að mörgu öðru að hyggja í framhaldi af niðurstöðu helgarinnar, svo sem eins og því að reyna að gera allt sem hægt er til að lánshæfismatsfyrirtæki felli ekki landið í lánshæfismati, tryggja snurðulausan framgang efnahagsáætlunar með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum o.s.frv. Að öllu þessu er verið að vinna kappsamlega eins og stjórnvöldum ber að sjálfsögðu að gera og eru í engum vandræðum með.