139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

hagsmunir Íslands í Icesave-málinu.

[15:34]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra féll í þá gryfju sem ráðherrar þessarar ríkisstjórnar virðast vera býsna fundvísir á, þ.e. að varpa af sér allri ábyrgð á þessu máli eins og öðrum. Auðvitað eru það hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni sem bera ábyrgð á málflutningi Íslands og hagsmunagæslu í framtíðinni gagnvart Bretum og Hollendingum, ekki einhverjir embættismenn eða lögfræðiteymi sem þeir ráða til að starfa fyrir sig.

Það er bara þannig, virðulegi forseti, að viðsemjendur Íslendinga í framtíðinni eða þeir sem sækja mál á hendur okkur Íslendingum þurfa ekki annað en lesa þingtíðindin og fara yfir yfirlýsingar hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra núna í um tvö ár til að sjá það að þessir aðilar hafa ekki mikla trú á þeim málstað sem þeir munu hafa fram að færa í málinu ætli þeir að sitja (Forseti hringir.) áfram. Ég tel, herra forseti, að sú ríkisstjórn sem nú situr sé ekki trúverðug til að halda uppi málstað sem hún hefur (Forseti hringir.) fram til þessa ekki haft trú á í tengslum við þetta mál.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmann til að virða tímamörk.)