139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

fjölmiðlar.

198. mál
[15:47]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Virðulegur forseti. Sú grein sem hér um ræðir lýtur að andsvararétti. Það er skoðun mín að mat á rétti til andsvara eigi að vera hluti af ritstjórnarstörfum fjölmiðla, að það eigi ekki að vera bundið í lög. Ég vil árétta skoðun mína í þessum efnum, þetta er samsvarandi ákvæði og var í gildandi lögum. Búið er að gera töluverða bragarbót á því ákvæði nú þegar sem hefur reyndar ekki verið mjög virkt en við eigum heldur ekki að vera með ákvæði í lögum okkar sem ekki eru nýtt. Þess vegna mun ég sitja hjá við þessa grein en vil að öðru leyti taka fram að lög þessi, og sérstaklega það er lýtur að ritstjórnarlegu sjálfstæði og réttindum blaðamanna, eru mikil bragarbót og fela í sér mikla réttarbót fyrir stéttina og ber að fagna því í heild sinni, enda mun ég samþykkja frumvarpið.