139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:56]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum hér atkvæði um nýjan innstæðutryggingarsjóð sem er sjóður til að styrkja innstæðutryggingarkerfi í þessu landi til að borgað sé inn í það hraðar og betur. Það er mikilvægur liður í endurreisn íslensks fjármálakerfis, það er fyrsta skrefið til að losa okkur undan ótakmarkaðri ábyrgð ríkisins á öllum innstæðum, sama hversu háar þær eru. Valið er í raun og veru einfalt: Vilja þingmenn að ríkið komi undantekningarlaust til bjargar föllnum fjármálastofnunum eða vilja menn að til staðar sé innstæðutryggingarsjóður í þessu landi sem grípur til?

Ef ekki verður brugðist við mun freistnivandi festast í sessi í bankakerfinu. Áhætta í rekstri banka verður alfarið á ábyrgð ríkisins ef við bregðumst ekki við með því frumvarpi sem hér er til atkvæðagreiðslu.