139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:57]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við greiðum atkvæði um nýjan innstæðutryggingarsjóð. Stjórnarandstaðan hefur fundið þessu frumvarpi það til foráttu að það veiti falskt öryggi. Það má til sanns vegar færa ef menn líta svo á að með þessum sjóði sé komin töfralausnin sem færi okkur fullkomna vernd í framtíðinni gegn áföllum í fjármálakerfinu. Þetta frumvarp gerir það ekki frekar en nokkurt annað lagafrumvarp á byggðu bóli. Það er engin töfralausn til á vanda fjármálakerfis sem er að koma sér á lappir eftir allsherjarhrun, en það er nauðsynlegt skref í rétta átt að setja á fót sjóð sem veitir innstæðueigendum vernd upp að tilteknu hámarki, sjóð þar sem inngreiðslur banka eru margfalt hraðari en í gamla sjóðinn, sjóð þar sem iðgjöld eru að hluta til áhættusækin.

Ég tek undir það með einstökum þingmönnum sem talað hafa í umræðunni að rétta leiðin til framtíðar er að tengjast samevrópsku tryggingakerfi þar sem möguleiki er á endurtryggingu, en á meðan það er ekki komið á verðum við að stíga skref hér heima til að byrja að reisa varnir fyrir almenning í landinu. Þetta frumvarp er liður í þeim almannavörnum þar sem lykilforsendan er að draga úr áhættusækni fjármálastofnana á Íslandi.