139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[15:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Innstæðutryggingartilskipun Evrópusambandsins er grunnurinn að Icesave-deilunni. Sú tilskipun sem er í gildi núna er mjög slæm, en sú sem verið er að innleiða núna, án þess að það sé komið í EES-samninginn, er hálfu verri. Þetta er stórmál fyrir íslenska þjóð og hefur því miður fengið allt of litla umræðu. Ég hvet fjölmiðlamenn til að opna nú augun fyrir þeirri miklu vá sem er fyrir dyrum.

Þessi tilskipun er ekki komin inn í EES-samninginn vegna þess að Norðmenn vilja gæta hagsmuna sinna. Þeir eru aðrir en okkar Íslendinga. Hæstv. ríkisstjórn og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafa ekki gætt hagsmuna Íslendinga í þessu máli og það er ekki trúverðugt að sá hæstv. ráðherra ætli núna að gæta hagsmuna Íslendinga í öðru máli.

Eins og ég nefndi er þessi tilskipun ekki (Forseti hringir.) komin inn í EES-samninginn. Við munum greiða atkvæði gegn frumvarpinu en sitja hjá við breytingartillögur (Forseti hringir.) sem þó eru margar ágætar.