139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Það er ekki ríkisábyrgð á innstæðum á Íslandi. Forsenda þeirra sem leggja þetta frumvarp fram, eins og kom fram í máli hv. þm. Magnúsar Orra Schrams, er sú að það sé ríkisábyrgð og við séum að minnka hana. Forsendan er því röng og þannig er málið sjálft rangt. Við höfum brugðist í því að láta ESB vita af því að þetta innlánstryggingarkerfi gengur ekki í litlum efnahagskerfum, það gengur ekki upp, mun aldrei ganga upp og alls ekki hér á Íslandi, þess vegna eigum við ekki að samþykkja þetta, alls ekki.

Ég mun styðja þá frávísunartillögu sem hér kemur fram enda er það eina rökrétta að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar því að núverandi lög eru ágæt svo langt sem þau ná. Við eigum ekki að vera að víkka þau út eins og hér er lagt til. Ég skora á hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins og aðra hv. þingmenn að styðja frávísunartillöguna. Ég skora líka á þá að greiða atkvæði gegn frumvarpinu og öllum breytingartillögum sem það varða.