139. löggjafarþing — 108. fundur,  11. apr. 2011.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

237. mál
[16:02]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er afskaplega brýnt að koma á fjármögnuðu innstæðutryggingarkerfi í landinu og það er nauðsynleg forsenda þess að við getum ætlað íslensku fjármálakerfi, endurreistu fjármálakerfi, að horfast í augu við haftalaust rekstrarumhverfi. Gjaldeyrishöft eru nauðsynleg verndaraðgerð fyrir fjármálakerfi sem ekki getur varið sig og byggir ekki á fjármögnuðu innstæðutryggingarkerfi. Við verðum að komast af stað í það ferli og í þeim breytingartillögum sem hér verða greidd atkvæði um á eftir er komið á mjög skynsamlegri umgjörð utan um þetta kerfi. Ég legg því að þingheimi að synja þessari frávísunartillögu og styðja þetta þjóðþrifamál sem er mjög til þess fallið að draga úr áhættu af fjármálakerfinu. Með hinum nýju lögum verður þá líka afmarkað miklu betur en áður hvert umfang hinna tryggðu innstæðna er.