139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

kostnaður við sölu Landsbanka Íslands o.fl.

546. mál
[16:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það er margt sérkennilegt í sambandi við aðdraganda þessa máls og hvernig það ber að hér í þinginu. Ég ætla ekki að hafa sérstök orð um það en forvitnilegt væri hins vegar ef hæstv. fjármálaráðherra gæti upplýst hvort hann hafi svarað umboðsmanni Alþingis fyrir helgi og með hvaða rökum hann hafi gert það vegna þeirra athugasemda sem umboðsmaður gerði við þann drátt sem hafði orðið á svörum frá hæstv. fjármálaráðherra til fjölmiðla, af sama toga og hér er greint.

Ég vil líka spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann muni gefa fjölmiðlum sundurliðaðar upplýsingar í samræmi við það sem þeir hafa spurt um í þessu sambandi. Verður hugsanlega um að ræða ítarlegri sundurgreiningu en hér var reifuð? Að lokum vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra (Forseti hringir.) hvort von sé á fleiri reikningum en þeim sem þegar eru komnir og nefndir voru í (Forseti hringir.) ræðu hans.