139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

kostnaður við sölu Landsbanka Íslands o.fl.

546. mál
[16:22]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Björn Valur Gíslason) (Vg):

Forseti. Þetta eru athyglisverðar upplýsingar þykir mér. Samtals hefur kostnaður, ef ég hef tekið rétt eftir, vegna ráðgjafar og undirbúnings við svokallaða sölu á Landsbanka Íslands numið 334 millj. kr., framreiknað til dagsins í dag, um 1,1% af söluandvirði bankans sem reyndar fékkst aldrei að fullu greitt, ef ég man rétt. Þetta var kostnaðurinn sem þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks var tilbúin til að leggja í til að ná stjórnarstefnu sinni fram og sá ekkert eftir því. Á hinn bóginn, það sem er í dag og er þá ekki allt upp talið, erum við að tala um kostnað við að leysa þann vanda sem af þeirri stjórnarstefnu hlaust upp á um 800 millj. kr. Í svari fjármálaráðherra kemur annars vegar fram hvað kostaði að einkavæða bankann og hins vegar hvað kostaði að gera þessa tvo samninga.

Það er sömuleiðis athyglisvert, virðulegur forseti, að þessir tveir sömu flokkar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, gerðu (Gripið fram í.) kröfu um þá samninganefnd sem var skipuð til að leysa þetta mál núna og formann hennar. Krafa var gerð um það héðan úr ræðustól dag eftir dag haustið 2009 að fenginn væri tiltekinn sérfræðingur, einn sá besti í heimi að sagt var, til að leysa þetta mál og að auki yrði skipaður fulltrúi stjórnarandstöðunnar í samninganefndina að kröfu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Það má því segja að það hafi kostað þjóðina 334 milljónir að einkavæða bankann, af hálfu þessara tveggja flokka og sömuleiðis voru þeir tilbúnir til að leggja í þennan kostnað við samninganefndina.

Að halda því síðan fram að þessi mál séu ekki tengd þegar hið síðara hefur nánast lekið út úr görnunum á fyrra máli, gengur ekki. Þetta er mál af sama meiði, þarna er upphaf þess og það sem hefði átt að vera endir þess en það er ekki enn séð fyrir endann á því. Þar af leiðandi er ekki enn fyrirséð hvaða kostnaður mun hljótast af þessu máli (Forseti hringir.) sem á upphaf sitt að rekja til ríkisstjórnarinnar sem Sjálfstæðisflokkur og (Forseti hringir.) Framsóknarflokkur mynduðu 1995 og til dagsins í dag. (Gripið fram í.)