139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

fækkun bænda.

551. mál
[16:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum gjarnan úr þessu ræðupúlti um atvinnumál. Þar má ekki gleymast hlutur bænda, en hringinn í kringum landið er rekinn myndarlegur búskapur og reyndar er í mínu heimahéraði, Eyjafirði, að finna með búsældarlegri héruðum hér á landi. Auðvitað veltir maður fyrir sér af hverju bændum fækkar ört, ekki bara hér á landi, heldur og í nágrannalöndum okkar. Er þar hægt að nefna lönd eins og Finnland og Noreg og þó að þau ríki séu að því leyti ólík að Finnland er innan Evrópusambandsins og Noregur utan þess er engu að síður mikil fækkun bænda í báðum þessum löndum. Á árabilinu 2000–2009 hefur bændum fækkað um 21% í Finnlandi en á sama tíma hefur bændum fækkað um 19 af hundraði í Noregi. Þeim sem hér stendur í pontu leikur forvitni á að vita hvernig þessum málum er háttað hér á landi en eins og þeir vita sem aldir eru upp í landbúnaðarhéruðum í kringum landið er sótt að þessari grein með margvíslegum hætti og nýliðun hefur kannski ekki verið sem skyldi í greininni út af margvíslegum ástæðum.

Menn velta mjög fyrir sér hver örlög íslensks landbúnaðar verða ef og þegar Íslendingar ganga í Evrópusambandið. Við höfum fyrirmyndir frá Finnlandi og Noregi í þessum efnum þar sem annað landið hefur gengið í Evrópusambandið og töluverð fækkun hefur orðið á bændum en í landinu sem hefur ekki gengið í Evrópusambandið eins og Noregur er álíka mikil fækkun bænda á sama árabili. Spurningin er hvort sama þróun er hér á landi og því langar mig að beina eftirfarandi spurningum til hæstv. landbúnaðarráðherra:

1. Hvað hefur orðið mikil fækkun í hópi bænda á Íslandi á árabilinu 2000–2010?

2. Hvar á landinu (eftir kjördæmum) hefur fækkunin orðið mest?

3. Í hvaða þremur greinum landbúnaðar hefur fækkunin orðið mest?

4. Hvað hefur afkoma bænda versnað/batnað mikið á tímabilinu?

Ég vona að hæstv. ráðherra geti svarað þessum spurningum vel og ágætlega.