139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

fækkun bænda.

551. mál
[16:53]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að fá þessar tölur hérna fram en þær segja ekki alla söguna.

Tökum dæmi: Það kom fram t.d. hjá hæstv. ráðherra áðan að mjólkurframleiðendum hefur fækkað mjög mikið. Engu að síður er staðreyndin sú að mjólkurframleiðslan í landinu hefur aukist. Það sem hefur gerst er að aukin tæknivæðing hefur það kallað á það að búin stækkuðu til að standa undir aukinni fjárfestingu.

Annað dæmi: Hæstv. ráðherra rakti réttilega hvernig minkabúum hefur fækkað í landinu eða loðdýrabúum. Engu að síður er staðreyndin sú að minkaframleiðslan er í miklum blóma og hefur aldrei staðið jafnstyrkum fótum og núna. Við sjáum því að jafnvel tölur um fækkun bænda segja ekki alla söguna um stöðu landbúnaðarins.

Ég vil líka vekja athygli á því að landbúnaðurinn er í dag sennilega fjölbreyttari atvinnustarfsemi en hann hefur nokkru sinni verið. Auðvitað eru margvísleg vandamál uppi í landbúnaðinum, auðvitað vildum við sjá þróunina öðruvísi, auðvitað vildum við sjá að hagur bænda væri betri en engu að síður er mikilvægt að leggja áherslu á að ýmislegt jákvætt hefur líka verið að gerast, t.d. (Forseti hringir.) í sauðfjárframleiðslunni. Ég var á aðalfundi Landssambands sauðfjárbænda og þar kom fram að markaðsskilyrði fyrir framleiðslu sauðfjárræktarinnar eru mjög góð einmitt núna. Það er vissulega vel og vekur með okkur (Forseti hringir.) bjartsýni.