139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

þjónusta dýralækna.

552. mál
[17:09]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Það vantar upp á að framkvæmdarvaldið fullnusti þessa breytingu sem sannarlega kom til vegna þess að við erum að innleiða Evrópusambandstilskipun. Oft á tíðum er erfitt að aðlaga Ísland sem er allt öðruvísi en Evrópa að því kerfi sem þar hefur verið sett upp. Það sem vantar er að framkvæmdarvaldið taki upp það sem við lögðum til í nefndinni um að í reglugerð ætti að koma fram hvernig starfsaðstæður væru vítt og breitt um landið og menn gætu þá valið hvort dýralæknir ætti að setjast að á tilteknu svæði til að þjónusta dýraeigendur. Það hlýtur að vera sameiginleg ábyrgð okkar allra, eins og hæstv. ráðherra lýsti yfir, að menn geti búið vítt og breitt um landið og haft dýr og fengið þá lágmarksþjónustu sem við hljótum öll að kalla eftir.

Framkvæmdarvaldinu ber því að setja þessa reglugerð sem fyrst. (Forseti hringir.) Þá skapast þær aðstæður sem verða í boði og þá kemur í ljós hvort þessi þjónusta verður í boði vítt og breitt um landið eða hvort grípa þurfi til einhverja séraðgerða.