139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

þjónusta dýralækna.

552. mál
[17:13]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Mér finnst þetta vera bæði góð og þörf umræða. Við eigum að átta okkur á því að við erum í fámennu og mjög dreifbýlu landi, matvælaframleiðslulandi, og við viljum tryggja að ákveðin grunnþjónusta sé í boði um allt land, ekki aðeins til að tryggja velferð dýra, framleiðslu og afurðir gripanna heldur einnig holla og góða matvælaframleiðslu. Við þurfum einmitt að taka mið af því.

Við þurfum náttúrlega líka að horfa til þess að eftirlitið kostar peninga þannig að vega verður þessa þætti saman. Ég deili þeim áhyggjum hv. þingmanna sem hér hafa talað en líka hvatningu þeirra um að það skýrist sem fyrst hvernig skipulaginu verði komið á út frá þeim grunnhagsmunum sem hér hafa verið raktir. Ég tel að það skipti t.d. máli hvernig og hvar við staðsetjum héraðsdýralæknisembættin í heildarmyndinni og einnig hvernig eftirlitsdýralæknaþjónustunni er hagað og tryggður verði sá grunnur sem hér hefur verið rætt um.

Varðandi sjónarmið hv. þm. Sigmundar Ernis Rúnarssonar um flutning verkefna á þessu sviði eða við skulum orða það sem svo að uppbygging verkefnanna sé sem næst vettvangi, matvælaframleiðslunni, dýrunum og búrekstrinum o.s.frv., þá er ég hjartanlega sammála hv. þingmanni. Eftirlitsstörfin felast ekki bara í því að koma og vera með eftirlitshnefann á lofti heldur eru þau líka leiðbeining og ráðgjöf og eiga að vera hluti af því samfélagi sem á allt sitt undir þessu. (Forseti hringir.) Þess vegna hljótum við eins og við mögulega getum að tengja þetta sem best saman. Ég deili því þessum sjónarmiðum með hv. þingmanni, frú forseti.