139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

raforkuöryggi á Vestfjörðum.

537. mál
[17:26]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Núna stígum við í takt við heimamenn og þess vegna er verið að fastsetja samstarfshóp milli stjórnvalda og orkufyrirtækjanna Orkubúsins og Landsnets sem er lykilaðili í þessu máli. Þessum samstarfshópi er ætlað að fara yfir tillögurnar og koma þeim í framkvæmd. Það er verkefnið sem fram undan er þannig að ég get svarað þessari spurningu játandi, það er ætlunin að gera þetta eins hratt og gerlegt er á næstunni til að þessi mál geti komist í skikkanlegt horf fyrir Vestfirðinga og landið allt. (Gripið fram í.)

Sá hópur sem nú fer af stað tekur tillögurnar og kemur þeim í framkvæmd — það er það sem ég er að segja, tillögunum sem horfa til skemmri tíma en líka þeim sem eru til lengri tíma. Það er ætlun mín að samstarfshópurinn verði starfandi þangað til mál eru komin í viðunandi horf.

Á starfstíma ráðgjafarhópsins vildi svo skemmtilega til að merkjanlegar framfarir áttu sér stað og þá sérstaklega vegna nýs búnaðar við tengistöð við Mjólká og vegna styrkinga á línum. Samkvæmt þeim mælingum sem farið hafa fram hefur straumleysi hjá Orkubúinu minnkað töluvert á þeim tíma og menn telja að það sé nú sambærilegt við dreifbýlið hjá Rarik.

Virðulegi forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður getum verið sammála um að bregðast þurfi við og að það sem mestu máli skipti sé að við erum að leggja af stað í rétta átt og við ætlum að vinna að þessu máli með Vestfirðingum en engu að síður til ábata fyrir landið allt. Eins og staðan er núna hefur hún ekki bara áhrif á Vestfirði heldur hefur hún efnahagsleg áhrif á landið allt.