139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

kaup á nýrri þyrlu.

613. mál
[17:29]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er hér með fyrirspurn til hæstv. ráðherra um kaup á nýrri þyrlu. Ástæðan er sú að eins og við vitum hefur Landhelgisgæslan búið við þröngan kost upp á síðkastið og ég ætla í sjálfu sér ekkert að fara að ræða um orsakir þess, heldur þetta er bara staðan sem við stöndum frammi fyrir. Forstjóri Landhelgisgæslunnar sagði í viðtali við Útvegsblaðið í febrúar síðastliðnum að Landhelgisgæslan hefði aldrei áður verið í svona slæmri stöðu. Hún hefur verið að reyna að halda úti lágmarksviðbúnaði en það hefur einungis verið hægt með því að leigja bæði skip og flugvélar úr landi í verkefni á vegum erlendra stofnana til þess að skapa sértekjur fyrir Landhelgisgæsluna. Nú er staðan sú eins og við vitum að á okkar stóra björgunarsvæði sem er um 1,8 milljónir ferkílómetra hefur Landhelgisgæslan eins og sakir standa eingöngu á að skipa einni þyrlu til þess að sinna þessu ógnarstóra svæði úr lofti. Vegna þess að þyrlan er bara ein hverju sinni hefur hún ekki heimild til að fljúga lengra en 20 mílur frá ströndinni, en ef það væru hins vegar tvær þyrlur hér að staðaldri, gæti drægnin aukist um 200 mílur. Önnur þyrlan er núna í skoðun og þegar hún kemur úr skoðun fer hin í skoðun og eftir því sem mér skilst verður jafnvel eitthvað framhald á því.

Þetta sjá auðvitað allir að er ekki góður kostur. Menn hafa verið að ræða hvernig hægt væri að leysa úr þessu. Á sínum tíma var ákveðið að fara í samstarf við Norðmenn um kaup á nýrri þyrlu. Það var á þeim tímum sem við töldum okkur eiga gnótt fjár þótt annað hafi reyndar komið í ljós. Í fréttum um helgina var greint frá því að hæstv. innanríkisráðherra hefði tekið þessi mál upp á ríkisstjórnarfundi og greint frá tiltekinni niðurstöðu eða tilteknum áfangahugmyndum um hvernig standa ætti að þessum málum. Þess vegna er tilefnið kannski enn þá meira núna að bera fram þessa fyrirspurn.

Í Morgunblaðinu á laugardaginn var var greint frá því að hæstv. ráðherra hefði lagt það til í ríkisstjórninni að samstarfi við Norðmenn yrði haldið áfram, en í stað þess að kaupa þrjár þyrlur eins og ætlunin var á sínum tíma, yrði reynt að kaupa eina og semja um kauprétt á tveimur til viðbótar.

Ég veit að í þessu sambandi hafa menn líka verið að ræða ýmsar hugmyndir eins og þær að lífeyrissjóðirnir kæmu með einhverjum hætti að fjármögnun á kaupum á þessum þyrlum. Allt þetta samanlagt gefur mér fullkomið tilefni til þess að spyrja hæstv. ráðherra um hvernig þessi mál standa núna.