139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

kaup á nýrri þyrlu.

613. mál
[17:39]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Því miður hef ég ekki forsendur til að svara þeirri spurningu afdráttarlaust með öðrum hætti en þeim að við stefnum að því að vera búin að fá þessi mál í lag hið allra fyrsta. Hugmyndin var sú að þriðja leiguþyrlan væri komin nú þegar en kjörin hafa reynst með þeim hætti að við höfum ekki getað sætt okkur við þau. Nefna má stærðargráðurnar í þessum málum, að ný björgunarþyrla með sérhönnuðum búnaði kostar um 6 milljarða. Ef keyptar væru gamlar þyrlur eða þyrlur sem búnar eru að vera talsvert í notkun, eins og á við um Gná t.d., mundi það kosta um 2 milljarða. Það er í þessu efni eins og svo mörgum öðrum að það er ódýrast að vera ríkur. Norðmenn hafa komist að þeirri niðurstöðu að nýjar þyrlur áþekkar þeim sem við vonumst til að fá hingað árið 2017, séu miklu ódýrari í rekstri en eldri þyrlur. Það er því hagkvæmara að eiga þyrlu og því nýrri sem þyrlurnar eru, þeim mun betri eru þær. Leigukostnaðurinn er eins og ég gat um áðan, upp undir 300 millj. kr. á ári. Það er fljótt að borga sig að kaupa gamla þyrlu í stað þess að leigja hana til frambúðar.

Ég þakka aftur fyrir umræðuna, hún er mjög þörf. Ég held að þetta sé nokkuð sem sameinar okkur Íslendinga ótvírætt. Við viljum öll hafa öryggismálin, ekki síst sem snúa að sjónum og sjávarháska, í góðu lagi þannig að við erum öll með sameiginleg (Forseti hringir.) markmið þar. Ég vonast til að þessi mál verði komin í betra horf hið allra fyrsta.