139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, efling forvarna o.fl.

597. mál
[17:52]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Þó að ég hafi sagt það hér að á þeim tíma hafi samkvæmt upplýsingum verið valið að nýta starfsmenn í annað, og þá líka eftir niðurskurðinn — haustið 2008 var hraustlega skorið niður og var þá reynt að hlífa sjálfri grunnþjónustunni en skorið niður í stjórnun og umfangi stjórnsýslustofnana og hefur meðal annars bitnað á þessum verkefnum. Ég get tekið undir með hv. fyrirspyrjanda og þingmanni Guðlaugi Þór Þórðarsyni að við megum alls ekki gleyma forvörnunum. Nú erum við að færa Lýðheilsustöð undir embætti landlæknis og þá er mjög mikilvægt að við tökum til hendinni og reynum að vinna af krafti að forvörnum. Markmiðið með heilbrigðisþjónustu almennt er jú að bregðast við ef illa fer, en það hlýtur líka að vera það að fækka þeim tilfellum sem koma til sjúkrahúsanna eða heilsugæslustöðvanna.

Á sama tíma er mjög mikilvægt að heilsugæslustöðvar og skólahjúkrunarfræðingar sinni því hlutverki að leiðbeina fólki varðandi forvarnir og þá ekki síst varðandi hreyfingu og mataræði eins og hér hefur komið fram. Þar hefur heilmikið verið gert þó það sé rétt, sem hér hefur verið sagt, að mikilvægt er að meta hver árangurinn er, ekki bara í magni þess sem gert hefur verið heldur líka hvort okkur tekst að snúa við þeirri óheillaþróun sem er að verða — offituvandamál er að verða sívaxandi vandamál í samfélaginu og þá skiptir mjög miklu að sporna við.

Eftir sem áður, og það er mikilvægt að það komi fram í þessari umræðu, snýst þetta ekki síst um leiðbeiningar til heimilanna. Jafnvel þó að við fjölgum íþróttatímum á einum stað eða heimsóknum á einhverjar heilsugæslustöðvar er það auðvitað hreyfingin í daglega lífinu sem skiptir mestu máli.