139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, opnun vefsíðu o.fl.

598. mál
[17:57]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og hér hefur komið fram erum við að ræða um heilsustefnuna, Heilsa er allra hagur, sem var gefin út í nóvember 2008 og var þá fyrsti hluti og fyrst og fremst aðgerðaáætlun. Eins og málshefjandi, og sá sem sat þá í stóli heilbrigðisráðherra, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, gat um var þessi framkvæmdaáætlun byggð upp eins og framkvæmdaáætlanir eiga að vera, þ.e. sett voru markmið, skýrt hver bæri ábyrgð á því að framfylgja þeim og síðan átti að fylgja því eftir með mælingum og þá væntanlega endurtaka leikinn að nýju. Það er það sem við munum að sjálfsögðu reyna að vinna að.

Ég las þessa skýrslu á sínum tíma og held að þetta sé góð vinna. Framkvæmdin dreifist að vísu á marga aðila og það er þá ágætt að fá tækifæri til að svara því hver staðan er á þessu.

Fyrsti liðurinn í þessari lotu í fyrirspurnunum var hvort tekist hefði að opna vefsíðu þar sem finna megi fróðleik um heilsu frá fagfólki.

Eins og ég sagði áðan þá náðist það markmið með opnun vefsíðunnar 6h.is í nóvember 2009, en vefsíðan er samstarfsverkefni Lýðheilsustöðvar, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, landlæknisembættisins og Landspítala. Gengið hefur verið svo frá málum að hægt er að telja fjölda heimsókna en ekki er farið að taka þær upplýsingar saman.

Þá má geta þess að vefsíðan umhuga.is hefur verið starfrækt frá því í október 2008, en þar er fjallað um geðheilsu barna og helstu þætti í uppeldi og aðstæðum barna og unglinga sem hafa áhrif á geðheilsu þeirra á uppvaxtarárunum. Samstarfsaðili í því verkefni er landlæknisembættið, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Barnaverndarstofa, barna- og unglingageðdeild Landspítalans BUGL, Stuðlar, Lýðheilsustöð og Barnavernd Reykjavíkur.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður hvort náðst hafi að taka upp lýðheilsumat þannig að gert verði lýðheilsumat á öllum málum sem heilbrigðisráðherra leggur fram á Alþingi.

Svarið við því er á þann veg að lýðheilsumat hefur ekki verið tekið upp en ég get tekið undir það að við stjórnvaldsákvarðanir væri æskilegt að leggja mat á það hvort þær hefðu áhrif á lýðheilsu til góðs eða ills, rétt eins og rætt hefur verð um að leggja mat á áhrif stjórnvaldsákvarðana á jafnréttismál, þannig að full ástæða er til að fylgja þessu eftir, sérstaklega af því við verðum að vera með skýr markmið varðandi lýðheilsu og reyna að koma okkur í þá stöðu að vinna skipulega að forvarnamálum.

Í þriðja lagi var spurt hvort tekist hefði að leita leiða í samvinnu við verslanir og framleiðendur matvæla til að draga úr salti, sykri, mettaðri fitu og transfitusýrum í matvælum og tryggja að dregið hafi úr salti í brauðmeti í lok árs 2009.

Svarið við því er að á árinu 2007 var unnið með Landssambandi bakarameistara við að kortleggja saltmagn í brauðum og leita leiða til að fá bakara til að draga úr saltnotkun. Ekki voru gerðar mælingar í lok árs 2009 eins og kveðið var á um en mælingar frá apríl 2008 leiddu í ljós lækkun frá fyrri mælingum eða svipuð gildi og er þróunin til lækkunar á salti.

Á tímabilinu 2008–2011 hefur samkvæmt mælingum orðið mjög afgerandi lækkun á magni transfitusýra í bökunarvörum.

Þess má geta að Lýðheilsustöð hefur lengi talað fyrir því að framleiðendur minnki salt, sykur, mettaða fitu og transfitusýru í matvælum sínum, t.d. salt í unnum kjötvörum, og hefur hvatt kaupendur, t.d. skólamötuneyti, til að setja gæðakröfur varðandi þessi næringarefni.

Lýðheilsustöð hefur einnig unnið með Ríkiskaupum varðandi gæðaviðmið á innkaupum á matvælum.

Í fjórða lagi er spurt hvort tekist hafi að setja reglur um hámarksmagn transfitusýra í matvælum fyrir lok árs 2010.

Svarið er það að bæði heilbrigðisráðuneytið og Lýðheilsustöð hvöttu mjög til að settar yrðu reglur um hámarksmagn transfitusýra. Nú hefur slík reglugerð litið dagsins ljós og tekur gildi 1. ágúst 2011.

Í fimmta lagi er spurt hvort það hafi gengið eftir að hollari vörur verði staðsettar á áberandi stöðum í verslunum og að tryggja að 100% þátttaka matvöruverslana hafi náðst í lok árs 2009.

Ekki hefur verið gerð könnun á því hver þátttakan var en Lýðheilsustöð hefur vakið athygli verslunareigenda á að þeir geti haft áhrif á neyslu landsmanna til góðs eða ills og hvatt þá til að nota þau áhrif til góðs. Stöðin hefur líka hvatt verslunareigendur sem selja matvæli og sætindi og bjóða afsláttarkjör á sætindum einu sinni eða oftar í viku til að bjóða sömu afsláttarkjör á ávöxtum og grænmeti.

Í sjötta lagi er spurt hvernig hafi gengið að vinna að því að grænmeti, ávextir og aðrar hollustuvörur verði til sölu í þeim íþróttamannvirkjum og sundstöðum sem selja matvæli og að þátttaka rekstraraðila íþróttamannvirkja og sundstaða verði 100% í lok árs 2009.

Þar hefur heldur ekki verið gerð könnun á því hver þátttakan var en Lýðheilsustöð vann leiðbeiningar fyrri hluta ársins 2008 fyrir íþróttafélög og forsvarsmenn íþróttamannvirkja um matarframboð og sendi öllum rekstraraðilum íþróttamannvirkja þær upplýsingar. Það má sjá þess stað víða í íþróttamannvirkjum að þetta hefur gengið eftir, en ekki liggur fyrir nákvæmlega (Forseti hringir.) hvort 100% markmiðinu hafi verið náð.