139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, opnun vefsíðu o.fl.

598. mál
[18:03]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þessi svör hæstv. ráðherra, sem ég þakka fyrir, valda mér nokkrum vonbrigðum en þó eru jákvæðir punktar hér inni. Stóra einstaka málið er kannski það að því hefur ekki verið fylgt eftir að mæla hlutina og þess vegna getum við ekki áttað okkur alveg nákvæmlega á stöðunni. Ég skil að vísu ekki af hverju ekki er hægt að mæla heimsóknirnar á 6h.is sem er mjög glæsilegur vefur. Þó að ég sé enginn tölvusnillingur, virðulegi forseti, er ég með heimasíðu og það er tiltölulega einfalt að kanna slíkt en það er kannski aukaatriði.

Ég held að þessi svör sýni okkur að við verðum að fara að mæla þetta þannig að við getum áttað okkur á stöðunni, því að allt er þetta sett fram til að ná þeim árangri sem við erum öll sammála um og ég rakti áðan og hæstv. ráðherra fór sérstaklega yfir og ég efast ekki eina stund um vilja hans í þessu máli. En þetta eru ágætistæki sem við erum með hér.

Af því að hér var rætt um niðurskurð, sem er svo sannarlega til staðar, verðum við alltaf að horfa til lengri tíma. Að stærstum hluta snýst þetta um áherslur hjá einstaka stofnunum og þar þurfum við alltaf, virðulegi forseti, að vera með þessi gleraugu. Ef við erum ekki með þau, og kannski sérstaklega núna, og vinnum ekki skipulega að því að sjá til þess að sérstaklega ungmenni, og svo sem allir, fái hreyfingu og góða næringu og leggjum áherslu á geðrækt, mun það koma beint niður á heilbrigðiskerfinu (Forseti hringir.) í formi útgjalda og miklu fyrr en við ætlum.