139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, opnun vefsíðu o.fl.

598. mál
[18:05]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé mikilvægt að við fylgjum slíkum markmiðum sem hér hafa verið sett fram. Auðvitað er mikilvægt að mæla þau en ekki síður að þau séu gripin af þeim aðilum sem leitað er til. Það þarf auðvitað að hvetja menn af og til til þess. Þá á ég við eins og hér kom fram að lögð sé áhersla á að einstakar stofnanir fylgi því eftir sem sett er fram, að það sé hvatning til að nota hollustu. Ég veit svo sem vel að t.d. íþróttafélögin hafa gert þetta í vaxandi mæli. Þau eru farin að hafa næringarfræðinga sem hluta af íþróttaþjálfuninni og íþróttamiðstöðvar hafa eins og ég segi aukið það að vera með ávexti. Maður sér það í sundlaugum og íþróttamannvirkjum að boðið er upp á það en ekki aðeins gos eins og var áður, þar eru hollustudrykkir og ávextir.

Skólarnir þurfa líka — við komum kannski að því síðar í fyrirspurnunum — það skiptir gríðarlega miklu máli að skólarnir taki þetta upp líka, skólamötuneytin. Það er ábyrgð allra og ekki hvað síst heimilanna, eins og ég sagði áður um það að ganga í skólann. Við komum líka inn á það síðar.

Varðandi það að mæling hafi ekki átt sér stað á vefsíðunni 6h.is, það þýðir fyrst og fremst að það hefur ekki verið tekið saman yfirlit um hver þróunin hefur verið. Það er sjálfsagt til heildarmæling en það þarf auðvitað að taka fram hvað þetta er mikið á viku og hvenær er það mest og allt þetta sem maður getur lesið út úr þeim tölum sem koma inn á vefinn. Það kostar sérstakt eftirlit ef menn ætla að fá nákvæman samanburð á þróuninni á því og það er það sem ekki hefur átt sér stað.