139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, virkjun fyrirmynda o.fl.

599. mál
[18:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Við erum enn í heilsustefnunni og núna er ég kominn á þann stað að spyrja um heilsustefnu í skólum og leikskólum sömuleiðis. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um hvað það skiptir gríðarlega miklu máli að við vinnum skipulega að forvörnum þar, og að börn, sama á hvaða aldri þau eru, sem þjást af hreyfingarleysi og ég tala ekki um næringarleysi búi við skert lífskjör er eitthvað sem við viljum auðvitað ekki sjá.

Þess vegna spyr ég, virðulegi forseti, nokkurra spurninga um eftirtalin markmið sem komu fram í heilsustefnunni:

a. að heilsusamleg skilaboð fyrirmynda hangi upp í skólum og íþróttamannvirkjum í lok árs 2009,

b. að allir leikskólar hafi fengið hvatningu og eða aðstoð í lok árs 2009 við að útfæra heilsustefnu í skólanámskrá sinni þar sem hugað sé að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan barna og starfsmanna þar sem komið verði á samstarfi við foreldra,

c. að gefa út DVD-disk fyrir leikskóla með leikjum og æfingum til að auka hreyfingu meðal barna og að hann verði kominn í alla leikskóla landsins í lok árs 2009,

d. að 30% leikskóla hafi sótt um viðurkenningu í lok árs 2009 um að þeir fari eftir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði og næringarefni sem útfærðar eru í handbók fyrir skólamötuneyti,

e. að allir grunnskólar hafi fengið hvatningu og eða aðstoð í lok árs 2009 við að útfæra heilsustefnu í skólanámskrá sinni, þar sem hugað sé að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan nemenda og starfsmanna þar sem komið verði á samstarfi við foreldra- og nemendaráð,

f. að 30% grunnskóla hafi sótt um viðurkenningu í lok árs 2009 um að þeir fari eftir ráðleggingum Lýðheilsustöðvar um mataræði og næringarefni sem útfærðar eru í handbók fyrir skólamötuneyti?

Virðulegi forseti. Haustið 2008 var lögð sérstök áhersla á það sem hefur síðan verið talsvert mikið í umræðunni sem er spurningin hvað við gefum börnunum okkar að borða, því að það hafa komið fram rökstuddar ábendingar um að þar sé víða pottur brotinn. Það sem gerst hefur á undanförnum áratugum á Íslandi er að líf barnanna okkar hefur færst miklu meira inn á stofnanir eða í skóla, bæði leikskóla og grunnskóla, og þess þá heldur skiptir afskaplega miklu máli að allt sem þar fer fram innan veggja sé eins og best verður á kosið og ekki síst næring. Þarna er auðvitað verið að spyrja um fleiri þætti en næringu en ég nefndi þann þátt sérstaklega hér vegna þess að ég veit að það hefur komið fram í umræðum í fjölmiðlum að það er nokkuð sem foreldrar hafa miklar áhyggjur af af ástæðum.