139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, hvatning til frístundaheimila o.fl.

600. mál
[18:30]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að eins og fram hefur komið hafi framhaldsskólarnir tekið afar myndarlega á þessum verkefnum. Í landinu í heild hefur íþróttaiðkun verið efld, víða er stutt mjög vel við alls kyns íþróttaiðkun. Það er auðvitað áhyggjuefni og hefur verið það í gegnum árin að ákveðinn hópur ungra krakka er kyrrsetufólk og tölvunotkunin hefur minnkað útiveruna víða þannig að það er ástæða til að hvetja til leikja og hreyfingar. Þá skiptir kannski mestu máli að hreyfa sig daglega, ganga í skólann, hjóla í skólann, að nota hluta af daglega lífinu í hreyfingu, ekki endilega búa hana til einhvers staðar annars staðar heldur reyna að efla hreyfinguna í daglegu lífi.

Það er auðvitað fullt af hlutum sem gengið hafa eftir, eins og áður hefur komið fram í svörum mínum og ég klára kannski að fara yfir nú í svari síðustu fyrirspurninni. Þeir vefir og þær kynningar — við erum að tala um Göngum í skólann, verið er að ræða um íhlutanir vegna ofþyngdar og offitu sem verið hafa varðandi mæður ungra barna og skólabarna sem unnið hefur verið átak í á vegum landlæknisembættis og heilsugæslna. Handbækur hafa verið gerðar fyrir leikskólaeldhús, skólamötuneyti og framhaldsskóla. Gerð hefur verið handbók um hreyfingu, handbók í ungbarna- og smábarnavernd, búið er að gefa út klínískar leiðbeiningar í mæðravernd sem komu út 2008 hjá landlæknisembættinu og á tímabili var verkefni í gangi, Heil og sæl í vinnunni, en því hefur verið hætt. Það var samvinnuverkefni Vinnueftirlits og Lýðheilsustöðvar og væri kannski ástæða til að lyfta því aftur, þ.e. að á almennum vinnustöðum yrði hreyfing aukin. Við höfum rætt verkefnið Hjólað í vinnuna, HOFF-verkefnið o.s.frv. þannig að ég held að við verðum að horfa til þess að það hefur líka orðið íþróttavakning í framhaldsskólunum. Lífshlaupið er mjög skemmtilegt verkefni sem verið hefur mikil hvatning (Forseti hringir.) í grunnskólum og þannig mætti áfram telja.