139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

framkvæmd heilsustefnu, íþróttamót í framhaldsskólum o.fl.

601. mál
[18:33]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er síðasta spurningin sem ég kem fram með að sinni. Við erum búin að fara í gegnum markhópana; leikskólabörn, grunnskólabörn og það fólk sem er í framhaldsskólum. Fyrirspurnir mínar í lokin tengjast framhaldsskólum en líka markhópunum sem eru fullorðnir. Það er afskaplega mikilvægur markhópur þó svo að það sé mjög eðlilegt að við leggjum mesta áherslu á ungmenni. Ég ætla aðeins að renna yfir fyrirspurnirnar, virðulegi forseti:

Hvernig hefur gengið að ná fram eftirtöldum markmiðum sem sett eru fram í heilsustefnu ráðuneytisins frá 2008:

a. að koma á fót íþróttamótum í framhaldsskólum í samvinnu við félög framhaldsskólanema, menntamálaráðuneyti og Íþróttasamband Íslands þannig að 100% þátttaka verði meðal framhaldsskóla í lok árs 2009,

b. að í lok árs 2010 hafi þeim fækkað sem nota vímuefni og reykja,

c. að 50 opinberar stofnanir hafi gert áætlun um öryggi og heilbrigði í lok árs 2009 þar sem hugað sé að andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan starfsmanna,

d. að allar stofnanir heilbrigðisráðuneytis hafi mótað sér heilsustefnu fyrir árslok 2009 og ríkisfyrirtæki almennt fyrir árslok 2010,

e. að í lok árs 2009 hafi Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið boðið upp á námskeið í öllum landshlutum til að fylgja eftir ráðleggingum um heilsueflingu á vinnustöðum,

f. að í lok árs hafi Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið boðið upp á námskeið fyrir atvinnulausa í öllum landshlutum?

Hér er farið inn á mál fullorðinna og þar ættum við að líta okkur nær. Ábyrgðaraðilar í þessum málum á vinnustöðum eru Lýðheilsustöð og Vinnueftirlitið en heilbrigðisráðuneytið og Lýðheilsustöð bera ábyrgð á stofnunum heilbrigðisráðuneytisins í þessu sambandi, hvort þær hafi mótað sér heilsustefnu fyrir árslok 2009 og ríkisfyrirtæki almennt fyrir árslok 2010. Það eru hæg heimatökin hjá ráðuneyti heilbrigðismála, nú velferðarmála, að ganga á undan með góðu fordæmi og sjá til þess að þessi markmið séu höfð í heiðri á vinnustöðum. Í rauninni er það eitthvað sem við ættum að gera á Alþingi ef við meinum eitthvað með því þegar við segjumst vilja sjá til þess að fólk stundi heilsusamlegri lifnað.

Í öllum fyrirspurnunum er rauði þráðurinn ekki að vera með boð og bönn heldur er þetta að stærstum hluta hvatning og leiðbeiningar. Hvatningin felst ekki síst í því að þetta er mælt þannig að þeir aðilar sem taka þátt sjá að það skilar sér með einhverjum hætti. Það er hugmyndafræðin í heilsustefnunni. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég bíð spenntur eftir svörum hæstv. ráðherra.