139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

bygging nýs Landspítala.

631. mál
[18:50]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spyr hér hver sé staða undirbúnings að byggingu nýs Landspítala. Eins og fram kom í fyrirspurninni hefur verið þverpólitísk samstaða um þessa byggingu og þó að ýmsar athugasemdir hafi komið fram og umræður eins og um staðsetningu og hagkvæmni og um hvort þetta borgi sig o.s.frv. hefur þetta alltaf lifað sem verkefni.

Í svarinu vil ég leiða hugann að því að í nóvembermánuði 2009 var undirrituð sameiginleg viljayfirlýsing lífeyrissjóða og ríkisstjórnarinnar um fjármögnun á nýjum Landspítala og í samræmi við lög nr. 64/2010 var stofnað opinbert hlutafélag um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík. Tilgangur félagsins er að standa að undirbúningi og útboði á byggingu nýs Landspítala með það að markmiði að ríkið taki bygginguna á langtímaleigu þegar byggingarverktaki hefur lokið umsömdu verki.

Á síðasta ári fór fram samkeppni um forhönnun á byggingu nýs Landspítala og íslenska hönnunarteymið Spítal varð hlutskarpast í samkeppninni. Nú er unnið að forhönnun spítalans, gerð deiliskipulags lóðar og gerð alútboðsgagna samkvæmt samningi við hönnunarteymið. Nýtt deiliskipulag er byggt á vinningstillögu Spítal-hópsins. Deiliskipulagið hefur verið lagt fyrir skipulags- og byggingarráð Reykjavíkurborgar. Stefnt er að auglýsingu á því skipulagi í apríl eða maímánuði. Með nýju skipulagi mun falla úr gildi skipulag landspítalalóðar frá 1976 með síðari breytingum.

Vinnan við forhönnun nýrrar byggingar á landspítalalóð er á áætlun. Í dag starfar fólk í um 30 stöðugildum á beinan hátt við verkefnið. Auk þess koma vinnuhópar, sem skipaðir eru starfsfólki Landspítala, að verkefninu í notendahópum sem rýna teikningarnar. Útboðspakkarnir verða sex og áformað er að þeir verði tilbúnir í september 2011 og febrúar 2012. Útboðsgögn vegna framkvæmda á lóð og alútboðsgögn vegna byggingar sjúkrahótels og bílastæðahúss verða tilbúin í september 2011 og er þá mögulegt að auglýsa útboð með þeim fyrirvara að deiliskipulagið verði þá samþykkt af Reykjavíkurborg. Alútboðsgögn vegna meðferðarkjarna sem m.a. á að hýsa legudeildir og rannsóknarhús verða tilbúin í byrjun febrúar 2012 nái áætlanir fram að ganga. Á sama tíma verða einnig tilbúin útboðsgögn vegna 7.500 fermetra byggingar fyrir heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands.

Samkvæmt lögum nr. 64/2010, um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík, skal fyrir undirritun samninga að loknu útboði leita samþykkis Alþingis fyrir framkvæmdinni með almennum lögum. Þetta var frágangur sem fjárlaganefnd lagði fyrir þingið og var hluti af lögunum. Að lokinni forhönnun verður gert nýtt kostnaðarmat fyrir framkvæmd verksins. Jafnframt verða aftur framkvæmdir hagkvæmnisútreikningar við að færa starfsemi spítalans á einn stað. Þegar útreikningarnir liggja fyrir verður nýtt frumvarp lagt fyrir Alþingi og ekki verður gengið frá skuldbindandi samningum um byggingu og fjármögnun nýrra bygginga fyrr en samþykkt Alþingis liggur fyrir. Þetta er sú umgjörð sem ákveðin var þar sem mikilvægt þótti að fjármögnunin yrði bókstaflega með þeirri hagkvæmni sem leiddi af því að færa alla starfsemina á einn stað.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður: „Hve mörg störf er áætlað að skapist á byggingartímanum, sundurgreint eftir árum?“ Svarið er að fjöldi starfa sem áætlaður er að verði á byggingartímanum er að árið 2011 verði þau 46, árið 2012 160, árið 2013 399, árið 2014 799, árið 2015 798 og árið 2016 554, og loks er reiknað með 11 störfum á árinu 2017. Hvorki er tekið tillit til mannafla vegna byggingar háskólans í framangreindum tölum né mannafla við breytingar eldri bygginga við Hringbraut en það er auðvitað ljóst að þar er töluverður mannafli til viðbótar.

Ég vona að ofangreindar upplýsingar svari spurningum hv. þingmanns. Ég tek undir það sem kom fram í máli fyrirspyrjanda að það skipti mjög miklu máli að við eigum öflugt flaggskip í heilbrigðisþjónustunni sem er Landspítali – háskólasjúkrahús. Þar er unnið gríðarlega gott og mikilvægt starf og það skiptir máli að umgjörðin sé nútímaleg og uppfylli allar nútímakröfur. Ég held að það hljóti að vera markmið að koma því á einn stað og búa þannig um hlutina að hægt sé að veita eins öfluga þjónustu og hægt er.

Í tengslum við Landspítalann eru svo deildir sem verða áfram starfandi, m.a. Grensásdeildin, og það er ekkert launungarmál að það er auðvitað í skoðun hvort hægt er að tengja það þessum framkvæmdum vegna þess að fyrir liggja áætlanir um endurbyggingu á því húsi upp á 1 milljarð. (Forseti hringir.) Ég hef komið því á framfæri að það væri kannski þarft að setja það inn í pakkann ef við ætlum að fara í fjárfestingar á næstu árum.