139. löggjafarþing — 109. fundur,  11. apr. 2011.

bygging nýs Landspítala.

631. mál
[18:55]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég fagna því sem kemur fram í svari hæstv. ráðherra og óska honum til hamingju með að vera kominn svona langt með þetta verkefni. Ég heyri ekki betur en að tilbúin séu gögn sem benda til þess að hægt sé að fara í útboð í september 2011, að þá séu tilbúnir ákveðnir útboðspakkar. Það eru einungis fimm mánuðir í september 2011 þannig að þetta er greinilega að bresta á ef hlutirnir ganga fram svona. Svo verða aðrir útboðspakkar tilbúnir í febrúar 2012. Þetta heyrðist mér koma fram í svari hæstv. ráðherra þannig að undirbúningurinn er þá mjög langt kominn.

Miðað við þær tölur sem hæstv. ráðherra fór með um mannaflaþörfina til 2017 eru þetta samanlagt upp undir 3 þúsund störf og það munar gríðarlega um þetta í því atvinnuleysi sem hér er. Ég fagna mjög þessu svari og hvet hæstv. ráðherra áfram í þessu. Það kom líka fram að taka þurfi málið aftur inn til þingsins til skoðunar sem er að mínu mati mjög eðlilegt þegar um slíkar stórframkvæmdir er að ræða. Ég hef engar áhyggjur af því vegna þess að það er mjög mikil pólitísk samstaða um þetta verkefni, enda er alveg gríðarlegur faglegur og fjárhagslegur ávinningur af þessu verkefni og það er miklu dýrara að bíða og gera ekkert en að fara í framkvæmdina. Það er dýrast að gera ekkert, það er mjög merkilegt. Það er langdýrast að gera ekki neitt.

Ég vil líka draga það fram að haldin hafa verið samráðsþing. Byggingarnefnd nýja Landspítalans undir forustu Gunnars Svavarssonar, formanns byggingarnefndar, hefur haldið samráðsþing þar sem þeir sem koma að byggingunni hafa haft tækifæri til að koma og fylgjast með hvað verkið er komið langt. Það er staðið mjög vel að þessu, ég hef sótt þessi samráðsþing og er mjög bjartsýn. (Forseti hringir.) Ég fagna því að ráðherrann treystir sér til að segja að það sé mjög líklegt að við sjáum hreyfingu á þessu strax í september.