139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar og framhald Icesave-málsins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:45]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar um helgina var afskaplega skýr. Hún var skýr um að ekki væri stuðningur meðal íslensks almennings við niðurstöðu úr samningum um þetta erfiða ágreiningsefni. Frá hausti 2008 hefur mikið verið unnið í að leita samninga um lausn á þessu máli. Í þessum sal var samþykkt umboð í þá veru í nóvembermánuði 2008 og þær tilraunir voru síðan endurvaktar með atbeina allra stjórnmálaflokka fyrir rúmu ári í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna sem þá var haldin. Nú er ljóst að jafnvel besti samningur sem fenginn er með aðkomu allra stjórnmálaflokka að samningaferlinu var ekki ásættanlegur fyrir íslenska þjóð. Það er augljóst að við unum þeirri niðurstöðu og verðum að gera það öll sem sitjum í þessum sal.

Hv. þingmaður, formaður Sjálfstæðisflokksins, rakti áðan að hann teldi að í þessari niðurstöðu fælist sérstakt vantraust á ríkisstjórnina. (Gripið fram í.) Ég tel ekki felast í þessu vantraust á það fólk sem allt hefur reynt til að leysa þetta mál með samningum á undanförnum missirum og árum heldur fagna því tækifæri að Alþingi fái að sýna í atkvæðagreiðslu stuðning við ríkisstjórnina í þeim erfiðu verkum sem hún stendur nú í.

Virðulegi forseti. Nú tekur við framsetning raka Íslands í þessu máli, að útskýra og sækja fram fyrir málstað Íslands vegna þess að við þurfum núna að undirstrika fyrir alþjóðasamfélaginu, Evrópuríkjum, stofnanakerfi Evrópska efnahagssvæðisins að við höfum góð efnisrök fyrir því að við berum ekki ríkari skyldur en ráða má af þeirri tilskipun sem málið snýst um. Mörg þessara raka eru þekkt. Aðstaða Íslands í efnahagshruninu 2008 var sannarlega fordæmalaus og það er hægt að færa fyrir því gild rök, og þau verða færð fram, að þar höfum við gert það sem mögulega var hægt að ætlast til af Íslandi til að bæta hag innstæðueigenda með því að breyta innstæðum í forgangskröfur. Við þurfum að vanda til málatilbúnaðar og skapa um hann ríka samstöðu milli stjórnmálaflokka.

Virðulegi forseti. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson nefndi áðan að hann vildi óska þeim til hamingju sem sögðu nei á laugardag. Ég vil eiginlega ganga lengra og óska þjóðinni til hamingju með að hafa komist að niðurstöðu í þessu máli. Þetta var erfitt mál, og kosningabaráttan og umræðan reyndi á. Ég óska þess jafnframt að þjóðin nái nú að brúa ágreininginn og sameinast eftir þennan erfiða tíma. Það er mikilvægt að við förum að sameinast um brýna þjóðarhagsmuni og setja þá í öndvegi þegar á bjátar. Það er óvissa um margt í lífinu og nú í íslensku efnahagslífi. Við gerum allt það og róum að því öllum árum alla daga að draga úr þeirri óvissu til að gæta þess að þessi tími nú verði nýtt upphaf að nýjum sigrum fyrir íslenska þjóð.