139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar og framhald Icesave-málsins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:01]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Forseti. Himinn hrundi ekki yfir okkur á sunnudaginn þrátt fyrir aftakaveður, ekki í gær og ekki í dag. Sólin skín reyndar hátt á lofti í dag þrátt fyrir að Icesave-samningnum hafði verið hafnað.

Forseti. Ég er afar stolt af samlöndum mínum fyrir að hafa ekki látið bugast þrátt fyrir linnulausan hræðsluáróður í aðdraganda kosninganna og fyrir að hafa fylgt innsæi sínu á laugardaginn var. Engir risahákarlar birtust nema í hugarheimi þeirra sem börðust fyrir því að við samþykktum ranglætið sem felst í því að skuldbinda þjóðina til að taka við skuld sem hún aldrei efndi til.

Forseti. Nú er mikilvægt að allir talsmenn þjóðarinnar virði lýðræðislega ákvörðun hennar sem endurspeglast í afgerandi niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni á laugardaginn var. Berjumst af sömu einurð fyrir bestu mögulegu niðurstöðu og gert var í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar. Hafa ber í huga að ef Icesave verður að dómstólamáli er vörn okkar þegar hafin og nákvæmlega allt sem talsmenn þjóðarinnar láta frá sér fara gæti verið notað gegn okkur í dómsmáli. Talsmenn verða því að gæta orða sinna, allra orða sinna — líka gagnvart forseta Íslands og ákvörðun hans að leggja Icesave-samningana í dóm þjóðarinnar eftir að hún kallaði eftir því.

Ég hef nokkrar áhyggjur af því að ef gervallur þingheimur getur ekki stillt strengi sína saman úr vörn í sókn þá getum við ekki ætlast til þess að þjóðin geri það. Hér verður að vera trúverðug vörn og trúverðug sókn. Ég sé ekki að það geti orðið nema einhver verði látinn axla ábyrgð á Icesave-sögunni endalausu.

Hreyfingin hafnaði samningaleiðinni þegar ljóst var að krafa okkar um að þjóðirnar þrjár mundu taka áhættuna saman yrði ekki hluti af samningunum. En við skulum hafa í huga að það var forusta Sjálfstæðisflokksins sem ákvað að berjast fyrir því að við ein mundum taka alla áhættuna. Því er það svo að talsmenn þeirrar leiðar hjá Sjálfstæðisflokknum eru engu trúverðugri en forusta ríkisstjórnarinnar til að sætta og sameina þjóðina um þá niðurstöðu sem þeir börðust gegn.

Forseti. Það er kominn tími til að einhver beri ábyrgð á Icesave-sögunni endalausu. Það er þeirra sjálfra að finna út úr því en einhver verður að bera ábyrgð þannig að vörn okkar og sókn verði trúverðug.