139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar og framhald Icesave-málsins, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:04]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Vissulega hefur margt athyglisvert komið fram sem ástæða er til að bregðast við.

Ég vil byrja á formanni Sjálfstæðisflokksins sem í fyrsta lagi kallar eftir kosningum. Þar með kallar formaður Sjálfstæðisflokksins eftir pólitískri upplausn í landinu á mjög erfiðum tímum þegar við stöndum í miðjum erfiðum umræðum í kjarasamningum sem skiptir miklu fyrir uppbyggingu atvinnulífsins og efnahagsþróun á næstu mánuðum og missirum hvernig lyktar. Ég held að það sé ekki skynsamlegt að gera það.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson kallar líka eftir vantrausti á ríkisstjórnina og boðar það þegar í dag. Ég segi bara, virðulegi forseti: Loksins, loksins mannar stjórnarandstaðan sig upp í að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina. Þeir hafa ekki svo sjaldan boðað að flytja vantraust á ríkisstjórnina án þess að láta verða af því. Mér finnst þetta mjög gott hjá stjórnarandstöðunni því að hún er þar með að leggja sitt af mörkum til að þjappa stjórnarliðum saman. Ég fer fram á það við hæstv. forseta að tillaga formanns Sjálfstæðisflokksins, ég veit ekki hverjir ætla að styðja hann í henni, verði tekin á dagskrá eins fljótt og auðið er (Gripið fram í: Heyr, heyr!) vegna þess að það er mikilvægt að fá niðurstöðu í það mál.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þegar hv. þingmaður kallar eftir vantrausti á ráðherra í ríkisstjórninni og stjórnarliða þá lítur hv. þm. Bjarni Benediktsson ekki í eigin barm. (BirgJ: Heyr, heyr!) Ég spyr: Nýtur formaður Sjálfstæðisflokksins trausts í Sjálfstæðisflokknum? Í fyrsta lagi var það ekki að sjá í nýafstöðnum kosningum að mikið af fylgi sjálfstæðismanna fylgdi honum í þeirri afstöðu sem hann tók — og ég vil láta fylgja: sem hann var maður að meiri að taka. Hv. þingmaður svaraði því ekki sjálfur í ræðu sinni hvort hann nyti trausts en því er svarað í málgögnum sjálfstæðismanna. (Gripið fram í.) Það vantar ekki að andstæðingar formanns Sjálfstæðisflokksins tali einum rómi og lýsi vantrausti á formanninn. Annað er ekki hægt að lesa út úr því.

Síðan kom að varaformanni Sjálfstæðisflokksins. Hún sagði að verri niðurstaðan hefði orðið ofan á, að ég hefði sagt það og ásakaði mig um það. Nú man ég ekki betur en varaformaður Sjálfstæðisflokksins hafi líka samþykkt þessa samninga. Hvað segir hún við því? Var þá verri niðurstaðan ofan á eða samþykktu 70% þingsins samningaleiðina? Ég held að hv. þingmaður ætti að íhuga hvað hún segir.

Og þegar hv. þm. Höskuldur Þórhallsson segir að hann treysti ekki ríkisstjórninni til að vinna að framgangi Íslands í þessu máli fyrir dómstólum, héraðsdómi eða erlendum dómstólum, hvað er hann þá að tala um? Treystir hann ekki færustu lögfræðingum sem við ætlum að fá í þetta verkefni, íslenskum sem erlendum, til að halda (Gripið fram í.) uppi málstað íslensku þjóðarinnar? Treystir hann þeim ekki til þess? Það er auðvitað það sem við höfum gert. Við vorum að tala um (Forseti hringir.) í dag að færustu lögfræðingar yrðu fengnir til þessa verks.

Það er ýmislegt annað, virðulegi forseti, sem ég hefði viljað segja í þessari umræðu en tíma mínum er lokið. Ég vil enda á því að þakka formanni Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) fyrir að ætla að flytja vantraust á ríkisstjórnina og þjappa þar með stjórnarliðinu saman. Kærar þakkir, Bjarni Benediktsson. (BjarnB: Það var lítið.)