139. löggjafarþing — 110. fundur,  12. apr. 2011.

fullgilding á samningi um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum.

676. mál
[15:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 74/1996, um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að fullgilda fyrir Íslands hönd samning um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum. Langur titill og langt frumvarp en ég reikna ekki með mikilli umræðu, því miður. Þetta er mjög merkilegt frumvarp og óskaplega mörg ákvæði í því sem ég hef ekki náð að kynna mér út í hörgul.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort þetta frumvarp hefði breytt einhverju um eftirgrennslan íslenskra skattyfirvalda eftir hrun. Það hefur vantað upplýsingar um eignarhaldsfélög á Tortóla sem reyndar heyrir ekki undir þetta en fer í gegnum stöðvar eins og t.d. Lúxemborg. Ef við hefðum staðfest þetta frumvarp áður hefði það hjálpað íslenskum skattyfirvöldum að ná og greina hvernig landið lægi í strúktúr fyrirtækja?

Ég hef margoft nefnt það hér, herra forseti, að ein af ástæðum hrunsins sé sennilega veila í hlutabréfaforminu sem felst í því að menn mynda keðjur af fyrirtækjum þar sem eitt hlutafélag á í öðru, hvert á fætur öðru. Þessar keðjur geta verið mjög langar og þær geta jafnvel farið í hring, þ.e. getur bitið í skottið á sér, og þannig fara peningar hring eftir hring og virðast mynda eign og hagnað sem ekki er til staðar. Þetta býður líka heim skattsvikum því að menn geta látið hagnaðinn myndast í hluta keðjunnar, einhverjum hlekk, sem liggur jafnvel í landi þar sem ekki eru skattar.

Spurning mín er einföld: Hefði þetta frumvarp, ef samþykkt hefði verið fyrr, fyrir hrun, leyst úr þessum vanda?